Innlent

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti segir grein New York Times fulla af rangfærslum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Í grein New York Times segir að friðanir á hálendinu verði dregnar til baka og að fleiri virkjanir verði leyfðar.
Í grein New York Times segir að friðanir á hálendinu verði dregnar til baka og að fleiri virkjanir verði leyfðar. mynd/vilhelm
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið segir grein New York Times í gær um staði sem ferðafólk er hvatt til að heimsækja áður en það verði um seinan fulla af rangfærslum varðandi Þjórsárver og fyrirætlanir stjórnvalda um verndun og nýtingu á svæðinu.

„Því er til dæmis haldið fram að Þjórsárver nái yfir 40 prósent landsins en hið rétta er að friðland Þjórsárvera nær yfir um 0,5 prósent alls landsins í dag,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í grein New York Times segir að friðanir á hálendinu verði dregnar til baka og að fleiri virkjanir verði leyfðar. Haft er eftir Árna Finnssyni, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands, að að engin leið verði að stöðva eyðileggingu á svæðinu.

„Engin áform eru uppi um að aflétta þeirri friðun sem er í gildi. Þvert á móti stefnir umhverfis- og auðlindaráðherra að stækkun friðlandsins og gangi þau áform eftir verður það ríflega 1.500 ferkílómetrar að stærð eða um 1,5 prósent af flatarmáli Íslands. Er því ljóst að um verulega stækkun friðlandsins er að ræða. Sú fullyrðing New York Times að til standi að aflétta friðun Þjórsárvera í því skyni að virkja svæðið er því bæði þverstæðukennd og röng,“ segir í tilkynningunni frá ráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×