Innlent

Kjör kennara eru fíllinn í stofunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, var meðal gesta í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, var meðal gesta í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun mynd/stefán
Bæjarstjórinn í Hveragerði segir að sveitarfélögum hafi gengið vel að greiða niður skuldir og hafi lagt metnað sinn í að bæta fjárhagsstöðu sína. Formaður borgarráðs segir skólamál verða eitt af meginmálunum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor og bæta þurfi kjör kennara.

Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs, Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri í Rangárþingi Eystra og Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði voru gestir Sigurjóns M. Egilssonar á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og ræddu helstu mál fyrir kosningarnar næsta vor. Aldís sagði mikilvægt að laga fjárhagsstöðu sveitarfélaga og þeim hafi flestum terkist að ná miklum árangri.

„Og sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið eiga hrós skilið fyrir hvernig tekið var á. Það var strax gripið með markvissum hætti inn í rekstur sveitarfélaga til að tryggja til að tryggja grunnþjónustuna eins og var vinsælt að orða það. Það tókst að sigla í gegnum þssa brimskafla þannig að íbúar almennt fundu ekki mikið fyrir því,“ segir Aldís.

Settar hafi verið fjármálareglur og skuldaþak sem sveitarstjórnarmenn leggja metnað sinn í að ná. Dagur segir að menntamálin verði eitt af stóru málunum fyrir komandi kosningar. Þar þurfi að huga sérstaklega að líðan drengja í skólunum því rannsóknir sýni að þeim líði mörgum illa og þeim gangi ver í námi en stúlkum.

„Það virðist vera eitthvað í skólastofunni eða hvernig við höfum skipulagt skólann kannski í gegnum áratugina henti ekki til að laða fram hæfileika hjá öllum strákum, meira heldur en hjá stelpum,“ segir Dagur. Nauðsynlegt væri  að menn færu að ræða fílinn í stofunni.

„Að kjör kennara skipta þarna máli. Þetta er svolítið eins og að ræða landbúnaðarkerfið. Það tekur til sín gríðarlega peninga án þess að bændur séu endilega ríkir. Ég held að það þurfi að endurhugsa skólakerfið, hvernig það er skipulagt, hvernig fjármunum er varið, hvernig vinnutíma kennara er hagað þannig að það verði meira eftir hjá kennurunum, en við náum meiri árangri og fáuum betri skóla,“ segir Dagur B. Eggertsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×