Innlent

Pez-safnið stærra en nokkru sinni fyrr

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Einhverfur drengur sem hefur safnað Pez-köllum um árabil, og tapaði safninu fyrir jólin, hefur nú  endurheimt það og gott betur. Fjöldi fólks lagði honum lið í söfuninni.

Hilmar Geir Ingibjargarson er tíu ára strákur búsettur í Sandgerði. Hann er greindur með einhverfu og áráttueinkenni og hefur safnað Pez-köllum í mörg ár með aðstoð systkina sinna. Hilmar átti orðið mjög stórt safn þegar hann varð fyrir því óláni að safnið týndist í flutningum, en fjölskyldan neyddist til að flytja þegar það kviknaði í íbúð þeirra.

Kristín Margrét, systir Hilmars, ákvað að efna til söfnunar fyrir bróður sinn og biðlaði til fólks í gegnum Bland.is að aðstoða við að byggja safnið upp á nýjan leik.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa, en fjöldi einstaklinga og fyrirtækja gáfu Hilmari kalla í safnið og sendu honum jafnvel falleg bréf með kveðju. Alls fékk hann 679 nýja Pez-kalla, en ef þeir eru dregnir frá sem hann fékk tvo eins af, eru þeir 442.

Pez-kallasafn Hilmars er nú jafnvel glæsilegra en áður. Sumir kallanna sem hann fékk gefins eru hreinlega safngripir sem hægt væri að selja fyrir háar upphæðir á netinu.

Hilmar ætlar að halda ótrauður áfram í söfnuninni og stefnir á stærsta Pez-kallasafn heims.

„Ég stefni á að eignast alla Pez-kallana,“ segir hann ánægður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×