Innlent

Skorar á ríkisstjórn að hætta við ýmsar gjaldahækkanir

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður Vinstri grænna segir að ríkisstjórnin ætti að sýna gott fordæmi og hætta við hækkun ýmissa gjalda en ætlast ekki bara til að sveitarfélög lækki hjá sér og fyrirtæki haldi aftur af sér með verðhækkanir. Verrt sé að skoða hvort verðtryggja ætti nýlegar launahækkanir.

Sveitarfélögin hafa mörg hver ákveðið að hækka ekki ýmis gjöld á þessu ári til að stuðla að stöðugleika í efnahagsmálum og minnkun verðbólgu í tengslum við mjög hóflega kjarasamninga sem nýlega var gengið frá á almennum vinnumarkaði. Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna vill að ríkisstjórnin leggi sitt lóð á vogarskálarnar í þessum efnum.

„Mér finnst ríkisstjórn kannski segja eitt og gera annað. Því um leið og ríkisstjórnin hvetur launamenn til að samþiggja kjarasamninga, hvetur atvinnurekendur til að hækka ekki verð erum við að sjá hækkanir á ýmsum þáttum hjá hinu opinbera. Við erum að sjá hækkanir á komugjöldum í heilsugæslu, hækkanir hjá Sjúkratryggingum bæði hvað varðar sjúkraþjálfun , hvað varðar hjálpartæki og fleira. Og um leið er sagt að einhverjar krónutölulækkanir muni verða gerðar á einhverjum opinberum gjöldum ef aðrir standi við sitt,“ segir Katrín.

Það væri eðlilegra að ríkisstjórnin gengi á undan með góðu fordæmi. Ríkisstjórn hafi hvatt til verðstöðugleika og tilgreint hvað þurfi að gera til að ná honum. Því sé eðlilegt að ríkisstjórn geri sjálf það sem hún boðar. Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði segir í pistli að eðlilegt væri að skoða að verðtryggja þær litlu launahækkanir sem samið var um á dögunum.

„Það myndi auðvitað sýna ákveðið traust á því að hér yrði staðið við verðbólgumarkmið. Því hættan er auðvitað sú að ef verðbólga fer af stað þá étist þessar hækkanir upp í verðbólgu. :Þannig að það er auðvitað eitthvað sem ég tel að ríkisstjórnin gæti auðvitað skoðað. En fyrst og fremst held ég að það sé mikilvægt að ríkisstjórnin sýni með aðgerðum að henni sé alvara með því að hleypa hér ekki af stað verðbólgu,“ segir Katrín Jakobsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×