Innlent

Súludansinn í Grindavík: „Það er mjög gaman að fylgjast með þessu“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Undanfarnar vikur hefur verið stiginn tignarlegur súludans við höfnina í Grindavík. Þar hefur verið mikið um síld og hafa hundruð eða þúsundir súlna elt hana í leit að æti.

Það er mikið sjónarspil að sjá súlurnar dýfa sér eftir síldinni en þegar okkur bar að garði í gær höfðu þær étið nægju sína í bili. Tökumaður Stöðvar 2 gerði aðra tilraun til að mynda fuglana í morgun en allt kom fyrir ekki enda getur náttúran verið óútreiknanleg. Jóna Hammer náði hins vegar myndunum sem sjást í meðfylgjandi myndskeiði.

Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík, líkir tilþrifunum þegar hamagangurinn er sem mestur við sprengjuárás. „Mér finnst sérstaklega flott að sjá hvað þetta er úr mikilli hæð, sem bendir kannski til þess að það sé dýpra á síldinni og súlan þurfi meiri hæð til að komast dýpra eftir henni,“ segir Sigurður.

Þótt ástandið sé óvenjulegt kom síldin líka í fyrra og hafði Sigurður áhyggjur af því að hún dræpist í höfninni. Hjá Hafrannsóknastofnun fengust hins vegar þau svör að vatnsskipti í höfninni væru næg og þar af leiðandi nóg af súrefni fyrir síldina. „Sennilega er hún að koma meira inn af því við höfum verið að dýpka og breikka rennuna hérna fyrir utan. Þar með er betra aðgengi að höfninni og einfaldara fyrir síldina að koma inn í hana.“

Kristinn Jóhannsson ólst upp í Grindavík og man aldrei eftir svo mikilli súlu innan hafnar. Hann segir þær vekja mikla aðdáun ferðamanna sem hafa komið á staðinn í hópum.

Situr súlan ein að síldinni, eru menn ekkert að reyna að veiða hana?

„Nei, menn eru nú ekki að reyna að veiða síldina hérna núna en hér eru skarfar. Skarfurinn hefur verið ansi duglegur að elta síldina og það er skemmtilegt að sjá hvernig veiðibjallan eða mávurinn bíður við yfirborðið þegar skarfurinn kemur upp og ætlar að reyna að rífa síldina af skarfinum því mávurinn náttúrlega kafar ekki. Það er mjög gaman að fylgjast með þessu,“ segir Kristinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×