Erlent

Páfagarður þarf að svara til saka

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Charles Scicluna, aðalsaksóknari Páfagarðs í kynferðisbrotamálum.
Charles Scicluna, aðalsaksóknari Páfagarðs í kynferðisbrotamálum. vísir/AP
Á morgun verða fulltrúar Páfagarðs kallaðir til yfirheyrslu í Genf hjá nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem fylgist með framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Meðal annars verða þar til umræðu kynferðisbrot gegn börnum, sem prestar og aðrir útsendarar kaþólsku kirkjunnar hafa orðið uppvísir að í mörgum löndum.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Páfagarður þarf að svara ásökunum um að hafa tekið af mikilli linkind á slíkum brotum og frekar staðið vörð um eigin orðspor og frekar en að sækja barnaníðinga í eigin röðum til saka.

Fulltrúi Páfagarðs verður Charles Scicluna, en hann er aðalsaksóknari Páfagarðs í kynferðisbrotamálum gegn börnum.

Árið 2010 komu kynferðisbrot kaþólskra presta fram í dagsljósið í Bandaríkjunum, ýmsum Evrópulöndum og víðar.

Páfagarður hefur ekki viljað svara öllum spurningum um þessi mál, og meðal annars borið því við að hann beri ekki ábyrgð á öllum prestum kirkjunnar og viðbrögðum allra safnaða kirkjunnar við ásökunum um kynferðisbrot. Hann beri aðeins ábyrgð á þeim 44 hektörum lands í Rómarborg sem hann hefur til umráða. Á því svæði búa nú rúmlega 30 börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×