Innlent

Risavaxinn kosningavíxill og eyðslufyllirí

Heimir Már Pétursson skrifar
Bæjarstjórinn í Kópavogi undrast tillögu minnihlutans sem Gunnar Birgisson studdi á bæjarstjórnarfundi í gær og efast um lögmæti framgöngu minnihlutans.
Bæjarstjórinn í Kópavogi undrast tillögu minnihlutans sem Gunnar Birgisson studdi á bæjarstjórnarfundi í gær og efast um lögmæti framgöngu minnihlutans.
Bæjarstjórinn í Kópavogi segir tillögu minnihlutans um byggingu félagslegs húsnæðis í bænum sem samþykkt var með atkvæði Gunnars Birgissonar í gær, vera risavaxinn kosningavíxil. Oddviti Samfylkingarinnar í bænum segir tillöguna lagða fram til að svara mikilli þörf fyrir félagslegt húsnæði í Kópavogi.

Það kom meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs í opna skjöldu þegar tillaga Samfylkingar, Vinstri Grænna og NæstBesta flokksins í minnihluta bæjarstjórnar um kaup á 30-40 íbúðum víðs vegar í bænum strax auk byggingar tveggja fjölbýlishúsa til félagslegra nota,  var samþykkt með atkvæði Gunnars Birgissonar fyrrverandi bæjarstjóra og bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í gær.

Pétur Ólafsson oddviti Samfylkingarinnar segir að ekki hafi verið samið við Gunnar fyrirfram um að greiða tillögunni atkvæði.

„En hann vissi af þessari tillögu. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem við leggjum fram tillögu um þetta. Þannig að það var bara mjög ánægjulegt að hann samþykkti hana með okkur,“ segir Pétur.

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri segir þetta óábyrga tillögu sem ekki hafi verið á dagskrá bæjarstjórnarfundarins í gær og sérkennilegt að flutningsmenn hennar hafi ekki samþykkt að vísa henni til fagnefnda og embættismanna bæjarins til frekari umfjöllunar. Þetta séu tillögur sem feli í sér um þriggja milljarða króna fjárútlát hjá bænum, sem uppfylli ekki lágmarksskilyrði sveitarfélaga um fjárhagsstöðu.

Oddviti Samfylkingarinnar segir fjarri lagi að upphæðin sé þetta há, því meiningin sé að vera í samstarfi við lífeyrissjóði og fleiri um þessi mál.

„Það er ánægjulegt að heyra þetta frá Pétri vegna þess að fyrir áramót var skipuð þverpólitísk nefnd  allra flokka sem Pétur situr í. Og núna er einmitt verið að gera fyrir okkur rannsókn á húsnæðismarkaðnum í Kópavogi og ég hef marg oft sagt að auðvitað þurfi fleiri að koma að þessu borði,“ segir Ármann.

Pétur segir að framlag bæjarins til byggingar tveggja fjölbýlishúsa myndu aðallega felast í lóðum undir húsin og  Ármann segir það alegrlega í takt við það sem rætt hafi verið í nefndinni. Hins vegar yrði bærinn að fjármagna kaup á 30 til 40 íbúðum sem talað er um í tillögunni, en Pétur segir að þau kaup myndu ekki eiga sér stað á einni viku eða einum mánuði, en nú sé heimildin til kaupanna komin.

Pétur segir vandann risavaxinn og það verði að taka á honum, en um 200 manns bíði eftir félagslegu húsnæði í bænum.

„Það má eiginlega ekki bíða lengur vegna þess að það er að skapast neyðarástand á húsnæðismarkaði,“ segir Pétur. En Ármann bæjarstjóri segir þetta ekkert annað en risavaxinn kosningavíxil.

„Við erum ekki einu sinni komin undir viðmiðunarmörk eftirlitsnefndar sveitarfélaga. Að fara út í svona eyðslufyllirí  þegar við erum ekki búin að ná þeim viðmiðum sem lögin kveða á um er náttúrlega mjög sérstakt. Maður auðvitað spyr sig,  eins og þetta er framsett, hvort þetta í rauninni standist lög, þessi framganga sem átti sér stað í bæjarstjórn í gær,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×