Innlent

Ákvörðun bæjarstjórnar í Kópavogi er ólögleg

Heimir Már Pétursson skrifar
Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins og formenn flokksfélaga Framsóknarflokksins í Kópavogi komu saman til funda seinnipartinn í dag til að ræða þá ólgu sem komin er upp í bæjarstjórn vegna óvæntrar samþykktar bæjarstjórnar í gærkvöldi.

Það er óhætt að segja að það hrikti í stoðum meirihlutasamstarfs Sjálfstæðismanna, Framsóknarmanna og Y-lista eftir að Gunnar Birgisson gekk til liðs við minnihlutann í atkvæðagreiðslu um húsnæðismál í gærkvöldi. Sjálfstæðisflokkurinn í bænum er greinilega klofinn í tvær fylkingar sem annars vegar fylgja Gunnari að málum og hins vegar Ármanni Kr. Ólafssyni núverandi bæjarstjóra.

Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar klukkan fimm en Ármann hefur nú þegar fengið mótframboð í fyrsta sætið frá Margréti Friðriksdóttur skólameistara Menntaskólans í Kópavogi.

En er þessi staða til marks um það að bæjarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sé klofin?

„Ég vona að svo sé ekki. Það er mikil áhersla lögð á það hjá okkur Sjálfstæðismönnum að flokkurinn standi heilshugar saman í bæjarstjórn, ekki hvað síst þegar við erum að fara í glæsilegt prófkjör þar sem í framboði eru fimmtán frambjóðendur. Og ég vona að við berum gæfu til að ljúka þessu kjörtímabili án þess að klofna,“ segir Bragi Mikaelsson formaður stjórnar kjördæmisráðsins.

Hann segir erfitt að búa við þessa tillögu, enda snúist hún um stórar fjárhæðir. Betra hefði verið að afgreiða húsnæðismálin á breiðum grunni í samstarfi við ríki og önnur sveitarfélög. En heldur Bragi að hægt sé að breyta þessari ákvörðun sem löglegur meirihluti tók á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi?

„Ég get ekki svarað þeirri spurningu. Ég hefði talið betra að undirbúa þetta betur,“ segir Bragi.

Og Framsóknarmönnum er langt í frá skemmt í þessari stöðu, en formenn Framsóknarfélaganna komu saman til fundar nú klukkan sex, til að meta framtíð meirihlutasamstarfsins.

Er meirihlutinn starfhæfur eftir þessa uppákomu í gærkvöldi?

„Við sáum það í gær að þá myndaðist minnihluti í meirihlutanum. Þannig að við erum í starfhæfum minnihluta að minnsta kosti.,“ segir Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins. En dugar það fram á vorið?

„Það er alveg ljóst að það er ekkert á Gunnar treystandi í þessu. Þannig að ég tel að við verðum að skoða þá möguleika að ræða við Samfylkinguna, Vinstri græna og Y-listann, hvort ekki þurfi að mynda starfandi stjórn,“ segir Ómar.

Er hægt að snúa þessari ákvörðun við sem tekin var í gær?

„Hún er klárlega ólögleg fyrir það fyrsta. Það eru lög í landinu sem segja til um hvernig á að vera með viðauka við fjárhagsáætlun. Þannig að hún er ólögleg,“ segir oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Kópavogs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×