Innlent

Fá úrræði fyrir þá sem kaupa falsað málverk

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Auka á eftirlit og rannsókn á málverkafölsunum samkvæmt nýrri þingályktunartillögu sem komin er fyrir Alþingi. Þingmaður segir sala á fölsuðum málverkum vera hreint og klárt efnahagsbrot. Málverkasali sem sýknaður var af sökum um stórfellda málverkafölsun segir tillöguna vera hreinan dónaskap.

Katrín Jakobsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason eru flutningsmenn þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að stofnaður verði starfshópur sem geri tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum. Vilhjálmur er sjálfur mikill málverkasafnari og telur málið brýnt.

„Að selja fölsuð málverk er efnahagsbrot. Eftirlitskerfið er ekki neitt. Einstaklingar sem lenda í þessu eiga mjög erfitt með að kæra, ferlið er mjög erfitt,“ segir Vilhjálmur.

„Það var ákært vegna 200 verka á sínum tíma en þeir sem fylgdust með markaði á þessum tíma, þeir töldu að það væru u.þ.b. 900 verk sem hefðu orðið til með þessum hætti.“

Enn hafðir fyrir sök

Fá dómsmál fengu eins mikla athygli snemma á síðasta áratug og Stóra málverkafölsunarmálið. Þar voru þeir Pétur Þór Gunnarsson og Jónas Freydal ásakaðir um umfangsmikla málverkafölsun. Athygli vekur að þingályktunartillagan sem nú er komin fyrir Alþingi byggir að hluta á því máli þrátt fyrir að þeir Pétur og Jónas hafi verið sýknaðir í Hæstarétti. Við þetta er Jónas afar ósáttur.

„10 árum seinna þá halda menn sama bullinu áfram. Það er svekkjandi. Þegar ég áfrýjaði þessu til Hæstaréttar þá var það til þess að draga menn til ábyrgðar fyrir það sem þeir gera. Að þurfa tíu árum seinna að vera að svara fyrir svona - þetta er dónaskapur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×