Innlent

Alþingi dæmt til að greiða ræstingakonu 1.200 þúsund krónur

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Alþingi hafði áður verið sýknað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Alþingi hafði áður verið sýknað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. mynd/gva
Hæstiréttur dæmdi í dag Alþingi til þess að greiða fyrrverandi starfsmanni sínum 1.200 þúsund krónur í skaðabætur vegna ólöglegrar uppsagnar haustið 2009. Alþingi hafði áður verið sýknað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Fyrrverandi starfsmanninum, konu sem vann við ræstingar, var sagt upp störfum eftir að hafa verið í veikindaleyfi í 360 daga og var réttur hennar til launa samkvæmt kjarasamningi þá  fallinn niður.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að konan hefði þá ekki verið fær sökum líkamlegrar vanheilsu að hefja að nýju vinnu í fullu starfi. Þótt konan hefði verið búin að glata rétti sínum til launa hefði Alþingi ekki verið heimilt samkvæmt kjarasamningi að leysa hana frá störfum vegna umrædds heilsubrests fyrr en í ágúst 2010, nema hún hefði sjálf óskað þess.

Ekki var gengið úr skugga um hvort líkamleg heilsa konunnar hefði þá enn staðið í vegi fyrir að hún gæti tekið við fyrra starfi sínu og henni var ekki gefinn kostur á að tjá sig um fyrirhuguð starfslok á þeim tíma.

Alþingi var því dæmt til að greiða konunni ofangreindar skaðabætur, auk málskostnaðar, samtals 1.800 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×