Innlent

Telur að fleiri hafi misnotað móður hennar

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Dóttir þroskaskertrar konu, sem segir að stjúpfaðir sinn og bræður hans hafi misnotað hana í um fjörutíu ár á sveitabæ á Snæfellsnesi, segir það mikil vonbrigði að ríkissaksóknari hafi ákveðið að láta málið niður falla. Í kvöldfréttum RÚV þann 8. janúar var greint frá því að málið hafi verið fellt niður sökum þess að gögn málsins hafi ekki þótt nægjanleg til sakfellingar. Brotin hafi annars vegar verið fyrnd og hins vegar hafi orð staðið gegn orði.

Sigríður Sóldal, dóttir þroskaskertu konunnar, var í viðtali í Kastljósi í kvöld en hún telur að fleiri karlmenn hafi misnotað móður sína. Fyrrverandi eiginmaður Sigríðar bíður þess nú að sakamál gegn honum verði tekið fyrir í Héraðsdómi Vesturlands en hann hefur viðurkennt að hafa misnotað tengdamóður sína.

Sigríður ólst upp á sveitabænum og segir að margt í hennar æsku hafi verið óeðlilegt. Hún hafi áttað sig á því á fullorðinsárum. Á sveitabæinn hafi komið menn í heimsókn og stoppað stutt, sem Sigríði þótti skrýtið þar sem sveitabærinn var ekki í alfaraleið. Hún segir að sig gruni að fleiri en bræðurnir og fyrrum eiginmaður hennar hafi notfært sér ástand móður sinnar. Amma hennar hafi jafnframt vitað af athæfi mannanna og telur Sigríður að hún sé í raun meðsek í brotum fósturafa hennar. 

Maðurinn var handtekinn í mars í fyrra og sat um tíma í gæsluvarðhaldi. Konan er nú um fimmtugt en grunur leikur á því að hann hafi misnotað hana frá því að hún var barn. Konan greindi frá því að maðurinn, tveir bræður hans sem nú eru látnir og tengdasonur sinn hefðu allir brotið gegn sér.

Réttargæslumaður fatlaðra á Vesturlandi og Vestfjörðum, Jón Þorsteinn Sigurðsson, segir í viðtali Kastljóss ætla að aðstoða konuna í því að halda áfram með málið og mun hann leita leiða til þess að fá málið skoðað að nýju.  



Sigríður vildi ekki tjá sig nánar um málið við fréttastofu að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×