Innlent

Sigmundur Davíð heiðursgestur á herrakvöldi

Jakob Bjarnar skrifar
Sigmundur Davíð verður í góðum félagsskap í kvöld, í herlegri veislu þar sem meðal annars verða málverk boðin upp.
Sigmundur Davíð verður í góðum félagsskap í kvöld, í herlegri veislu þar sem meðal annars verða málverk boðin upp. Víðir páll þorgrímsson
Lionsklúbburinn Njörður er einhver öflugasti klúbbur landsins og þó víðar sé leita. „Þú mátt fullyrða það að þetta er flottasti klúbbur landsins,“ segir Sigurður Sumarliðason ritari og glaðbeittur. Hann segir að herrakvöld klúbbsins séu rómuð, þau hafa verið haldin árlega allt frá árinu 1961.

„Og fljótlega, nánast strax, komst á sá siður að halda málverkauppboð. Og það telst vera elsta málverkauppboð landsins,“ segir Sigurður; sú hefð hefur jafnframt myndast að glæsilegar og léttklæddar meyjar sýna gestum myndirnar. Og verkin sem boðin eru upp eru eftir ýmsa af fremstu myndlistarmönnum þjóðarinnar: Tolla Sigurð Örlygsson, Pétur Gaut, Gunnellu, Húbert Nóa, Sossu og fleiri og fleiri. Sá hagnaður sem myndast fer allur í að safna fyrir nýjum endurhæfingartækjum sem sárlega vantar á Grensáss.

Veislan er í Súlnasalnum, verð aðgöngumiða er 16 þúsund og í glæsilegum bæklingi þar sem kvöldið er kynnt gefa menn ekkert eftir: „Herrakvöld Njarðar hefur fyrir löngu skipað sér sess sem stórkostleg veisla og skemmtun í upphafi árs, sem um 200 manns sækja að jafnaði.“ Jafnframt kemur fram að veislustjórar eru þeir Ari Edwald forstjóri og Helgi Jóhannesson lögfræðingur.

„Þeir voru báðir í klúbbnum á árum áður,“ segir Sigurður og kynnir til sögunnar ræðumann kvöldsins sem er Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtakanna. Sigurður segir að ekki sé ætlast til þess að Sigmundur Davíð taki til máls, en á Sigurði er þó að heyra að hann reikni frekar með því að forsætisráðherra ávarpi samkunduna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×