Innlent

Færri flugeldum skotið upp

Minna var skotið upp af flugeldum í gær miðað við undanfarin ár að mati Landsbjargar. Flugeldasala gekk þó vel og var mikil örtröð á sölustöðum eftir hádegi í gær.

Um fimm þúsund sjálfboðaliðar koma að flugeldasölu Landsbjargar sem er með hundrað sölustaði um allt land.

Jón Ingi Sigvaldason hjá Landsbjörgu segir að flugeldasala hafi gengið sæmilega.

„Salan held ég að hafi gengið sæmilega svona heilt yfir. Ég hef reyndar ekki heyrt frá öllum stöðum en mér fannst aðeins minna í loftinu heldur en oft áður þannig að það getur vel verið að þegar ég fæ upplýsingar frá sölustöðum á höfuðborgarsvæðinu að það hafi orðið einhver samdráttur í sölu,“ segir Jón.

Jón segir að mikið hafi verið að gera á sölustöðum eftir hádegi í gær. Ekki liggur fyrir hvaða flugeldategundir seldust mest.

„Ég var búinn að heyra aðeins í mönnum í gær. Þetta er misjafnt eftir svæðum og bara verslunum. Sumstaðar voru svona risakökur að seljast sem aldrei fyrr og á öðrum stöðum voru pakkarnir að fara meira en vanalega,“ segir Jón




Fleiri fréttir

Sjá meira


×