Innlent

Fólk illa drukkið á Akureyri í nótt

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Lögreglan á Akureyri fyllti fangageymslur.
Lögreglan á Akureyri fyllti fangageymslur. mynd/Pjetur Sigurðsson
Mikil ölvun var á fólki á Akureyri í nótt. Lögreglan þar segir nóttina hafa verið annasama og þau hafi verið að til átta í morgun.

Margir skemmtistaðir voru opnir. Að sögn Ragnars Kristjánssonar, varðstjóra lögreglunnar á Akureyri, var ölvun óvenjumikil. „Við höfðum orð á því hvað fólk virtist vera illa drukkið,“ segir hann.

„Við fylltum fangageymslurnar, það er ekkert flóknara en það,“ segir Ragnar. Engar alvarlegar líkamsárásir áttu sér stað en mikið var um smá pústra, hrindingar og óspektir. Á Akureyri eru samtals tíu fangaklefar.

Ragnar segir að þó hafi aðeins einn verið tekinn fyrir ölvun við akstur. Sá var tekinn í gærkvöldi eftir að hann hafði klesst á annan bíl. Lögreglan var þó dugleg við að stöðva ökumenn og kanna ástand þeirra. „Þeir sem voru á ferðinni á bílum virðast ekki hafa verið að drekka áfengi,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×