Innlent

Barnaverndarnefnd á ekki rétt á upplýsingum úr vanskilaskrá

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Barnavernd Reykjavíkur má ekki fletta upp upplýsingum um fjárhagsmálefni og lánstrausts tiltekins einstaklings í skrá Creditinfo Lánstrausts hf. í tilefni af rekstri barnaverndarmáls fyrir dómi. Þetta er niðurstaða Persónuverndar samkvæmt ákvörðun 2. janúar 2014.



Creditinfo sendi Persónuvernd bréf í maí á síðasta ári og óskaði eftir áliti nefndarinnar á því hvort barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefði heimild til að fletta einstaklingi upp í vanskilaskrá vegna máls sem væri rekið fyrir dómstólum um forsjársviptingu.

Barnaverndarnefnd skal senda Persónuvernd staðfestingu á því eigi síðar en 9. janúar um eyðingu upplýsinga um þennan tiltekna einstakling hjá barnaverndarnefnd og skriflega lýsingu á því hvernig tryggt verði að uppflettingar í skránni af hálfu hennar muni framvegis samrýmast lögum.

Töldu rúma heimild vera í barnaverndarlögum

Í júlí var barnaverndarnefnd Reykjavíkur tilkynnt um málið. Í kjölfarið fóru nokkur bréf á milli Persónuverndar og barnaverndar Reykjavíkur. Persónuvernd óskaði meðal annars eftir upplýsingum, frá barnaverndarnefnd, um það á hvaða heimild í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, slík uppfletting hjá Creditinfo byggi.

Persónuvernd óskaði jafnframt eftir upplýsingum um hver tilgangur uppflettingarinnar hefði verið og hvernig sá tilgangur samræmdist hlutverki vanskilaskrár og upplýsingum um það hvernig nefndin hefði gætt að ákvæðum laganna þegar viðkomandi einstaklingi var flett upp í skránni.

Barnavernd vísaði til þess að í barnaverndarlögum væri ákvæði sem hefði að geyma mjög rúma heimild til þess að óska eftir upplýsingum sem máli geta skipt við meðferð barnaverndarmála. Þær upplýsingar sem barnavernd óskaði eftir frá Creditinfo hafi verið nauðsynlegar vegna meðferðar málsins.

Persónuvernd ítrekaði þá spurningu sína um það á hvaða lagaheimild uppflettingin grundvallaðist og hver hefði verið tilgangur hennar og hvernig sá tilgangur samræmdist hlutverki vanskilaskrár. Einnig óskaði Persónuvernd eftir skýringum á því af hverju nöfn og kennitölur barnanna í þessu tiltekna máli hefðu komið fram í svarbréfi barnaverndar til Persónuverndar og hvort sú framkvæmd væri almennt viðhöfð.

Barnaverndarnefnd svaraði að við nánari skoðun væri þeim ekki heimilt samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar við Creditinfo  að óska eftir þessum upplýsingum. Nefndin hefði þó talið vinnsluna málefnalega og tilgang hennar skýran. En tilgangurinn hefði verið að hrekja staðhæfingar sem fram komu í gögnum dómsmáls um fjárhagsstöðu aðila málsins.

Barnaverndarnefnd birtir almennt ekki nöfn barna

Um birtingu nafna og kennitalna þeirra barna sem mál nefndarinnar laut upphaflega að segir í bréfi hennar að í ljósi þeirrar ríku þagnarskyldu sem hvíli á öllum þeim sem vinni að barnavernd. Nefndin birti almennt ekki nöfn og kennitölur barna í bréfum sínum og að sú grundvallarregla væri virt í hvívetna.

Þrátt fyrir ríka þagnaskyldu hafi verið talið nauðsynlegt að veita Persónuvernd upplýsingarnar til að skýra málið sem um ræddi. Persónuvernd væri eftirlitsstjórnvald í þeirri aðstöðu að geta óskað upplýsinga og skýringa í tengslum við viðkvæm mál sem yrðu ekki takmarkaðar með vísan til þagnarskyldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×