Innlent

Hjónin á Eiði Vestlendingar ársins

Samúel Karl Ólason skrifar
Bjarni og Guðrún Lilja að Eiði eru Vestlendingar ársins 2013.
Bjarni og Guðrún Lilja að Eiði eru Vestlendingar ársins 2013. Mynd/Skessuhorn/hlh
Skessuhorn hefur valið hjónin Bjarna Sigurbjörnsson og Guðrúnu Lilju Arnórsdóttur Vestlendinga ársins 2013. Skessuhorn hefur staðið fyrir vali á Vestlendingi ársins í fimmtán ár og að þessu sinni sendu lesendur blaðsins inn fjölmargar ábendingar. Alls voru 22 tilnefndir. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Skessuhorni að þetta sé í fyrsta sinn sem hjón hljóta titilinn.

Í tilkynningunni er fjallað um þau hjón.



Öflugir útverðir byggðar

Hjónin og bændurnir Bjarni og Guðrún Lilja að Eiði komu oft fyrir í umfjöllun fjölmiðla á liðnu ári. Ekki hefur farið framhjá lesendum Skessuhorns hversu umfangsmikill síldardauðinn í Kolgrafafirði var og áhrif hans þegar um 52 þúsund tonn af síld drápust í firðinum. Síldina rak ýmist í bunkum á fjörur við Eiði eða sökk til botns til rotnunar með neikvæðum afleiðingum á lífríkið.

Útlit var fyrir mikla umhverfismengun og var grútarváin allt um lykjandi og daunninn eftir því. Hamförunum tók heimilisfólkið að Eiði hins vegar af mikilli stillingu svo eftir var tekið í samfélaginu. Bændur eru öðrum þræði útverðir byggðar í landinu gagnvart heimi náttúrunnar.

Má af reynslu síldardauðans í Kolgrafafirði sjá að hjónin að Eiði valda því hlutverki einkar vel og eru að mati blaðsins og lesenda þess öðrum til fyrirmyndar. Skessuhorn óskar þeim hjónum innilega til hamingju með vegsemdina.


Aðrir sem fengu þrjár tilnefningar eða fleiri eru:

Dr. Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri fyrir verðmæta skráningu heimilda um tækni og störf til sveita.

Garðar Stefánsson og Sören Rosenkilde stofnendur Norðursalts á Reykhólum.

Gísli Ólafsson ferðaþjónn í Grundarfirði.

Guðrún Haraldsdóttir gangbrautavörður í Borgarnesi.

Kristín Gísladóttir og Sigrún Katrín Halldórsdóttir í Borgarnesi fyrir vitundarvakningu gegn einelti.

Ingólfur Árnason forstjóri Skagans á Akranesi fyrir uppbyggingu atvinnulífs.

Ólafur Adolfsson lyfsali á Akranesi fyrir ríka þjónustulund.

Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA fyrir störf að hagsmunamálum launþega.

Þór Magnússon á Gufuskálum fyrir uppbyggingu í ferðaþjónustu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×