Innlent

Drangsnes gengur fyrir díselvél

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Rafmagnið á Drangsnesi hefur verið að detta út og bærinn gengur fyrir díselvél þegar það gerist. „Rafmagnið hefur verið óstöðugt, línan er ekki nógu öflug og hún er að sligast undan ísingu,“ segir Óskar Torfason, íbúi á Drangsnesi.

Rafmagnið er á núna en það fór síðast af á þrettándanum og þar á undan á annan í jólum. „Þá var rafmagnið sífellt að slá út. Það er hvimleitt þegar rafmagnið fer kannski af 12 sinnum yfir daginn,“ segir Óskar. „Við erum heppin að hafa varaaflið.“

Reynt er að koma rafmagninu á áður en gripið er til þess að keyra á díselvélinni. Þá eru gerðar nokkrar tilraunir til þess að koma rafmagninu á áður en varaaflið er sett inn. Að sögn Óskars getur það valdið skemmdum á rafmagnsmótorum þegar rafmagnið er að detta út og inn og það hangir alltaf inni smá straumur. Aðallega veldur ástandið skemmdum hjá atvinnufyrirtækjum en líka á tölvum og öðrum raftækjum.

„Það þarf að styrkja línuna fyrst og fremst, það stóð til að koma þessu í jörð hér á vesturkaflanum. Það stóð til að gera þetta á síðasta ári og við vonumst til þess að það verði klárað sem fyrst,“ segir Óskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×