Innlent

Stjórnarmenn RÚV ohf funda með starfsmönnum

Jakob Bjarnar skrifar
Starfshópur stjórnar vill heyra í starfsmönnum RÚV ohf. og gerir það nú klukkan fjögur.
Starfshópur stjórnar vill heyra í starfsmönnum RÚV ohf. og gerir það nú klukkan fjögur.
Valdir starfsmenn Ríkisútvarpsins funda nú á eftir með starfshópi stjórnar stofnunarinnar. Þeir sem skipa þann starfshóp eru Guðrún Nordal, sem fer fyrir hópnum, Sigríður Hagalín, Björg Eva Erlendsdóttir, Magnús Geir Þórðarson og Björn Blöndal. Eftir því sem næst verður komist stendur til að heyra ofan í starfsmenn og hvort þeir hafi eitthvað til málanna að leggja til úrbóta, en eftir fjöldauppsagnir fyrir rúmum mánuði, og svo uppsögn útvarpsstjóra Páls Magnússonar, hefur verið lágt risið á starfsmönnum; einkum þeim á Rás 1.

Lísa Pálsdóttir er dagskrárgerðarmaður á Rás 1 og hún talar um ófremdarástand, enda hafi verið mikið klofið úr hópnum, 11 eða því sem næst helmingur starfsmanna Rása 1. „Það er ófremdarástand hérna. Skringilegt andrúmsloft enda starfsemin lömuð; með einn fót. Vantar alla tónlistarstjórn til dæmis og skrítið hvernig þetta var hugsað og að þessu staðið. Vantar allt tónlistarútvarp á Rás 1,“ segir Lísa. Hún segir stöðuna einsdæmi í sjálfu sér: „Bráðabirgðaútvarpsstjóri, bráðbirgðadagskrárstjóri, fjármálastjórinn á burtleið... þannig að þetta er skrítið ástand.“

Ekki eru það þó einungis starfsmenn Rásar 1 sem við verður rætt. Ólafur Páll Gunnarsson mun mæta á fundinn fyrir hönd Rásar 2. Hann segist ekkert vita um þetta og telur ekki að með þessu sé stjórnin að fara út fyrir lögskipað hlutverk sitt og sé hlutast til um dagskrárstjórnun – en þetta er vissulega eintakt. Ólafur Páll hefur ekki heyrt af fundum starfsmanna og stjórnar þau rúmu tuttugu ár sem hann hefur starfað hjá stofnuninni. „Ég held að þetta snúist um að þau heyri einhverjar hugmyndir um stefnu og forgangsröðun. Óformlegt spjall. Talsverð skörð hafa verið höggvin í framlínuna hjá okkur, ekki hægt að horfa fram hjá því.“

Sigríður Hagalín hefur verið einskonar tengiliður stjórnar og starfsmanna enda hún bæði í stjórn og starfsmaður. Ekki náðist í Sigríði fyrir birtingu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×