Innlent

Ráðist á starfsmann á bar í nótt

VÍSIR/HARI
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Á fjórða tímanum í nótt var lögregla kölluð til þegar smájeppi hafði snúist á Hringbraut við Sæmundargötu. Ökumaður bílsins stóð þá við  hlið bílsins og var áberandi ölvaður að sögn lögreglu. Aðspurður kvaðst ökumaðurinn vera á leið til Hafnarfjarðar. Eitthvað hafði honum fipast þannig að jeppinn snérist nokkra hringi og skall á kantsteinum og varð þar með óökufær. Einnig er talið að bifreiðin hafi rekist utan í fleira.

Ökumaðurinn var vistaður í fangaklefa og verður yfirheyrður þegar hann verður í ástandi til þess. Einnig verður kannað hvort að maðurinn hafi ekið utan í fleira á leið sinni í Hafnarfjörð. Tveir aðrir ökumenn voru teknir úr umferð í nótt fyrir ölvunarakstur og fjórir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.

Þá var tilkynnt um tvær líkamsárásir í nótt. Á öðrum tímanum réðst gestur á veitingamann á bar við Mýrargötu. Árásarmaðurinn var afar æstur samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Talið er að veitingamaðurinn hafi sloppið lítt meiddur frá árásinni.

Laust eftir klukkan tvö í nótt var ráðist á mann í Austurstræti. Sá sem varð fyrir árásinni var með brotna tönn og nefbrotinn. Árásarmaðurinn, karlmaður um tvítugt, var handtekinn skammt frá. Allir fangaklefar á Hverfisgötu voru í notkun í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×