Innlent

Samið við Reykjanesbæ um þjónustu við hælisleitendur

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu.
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, og Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu. Vísir/Innanríkisráðuneytið
Útlendingastofnun hefur samið við Reykjanesbæ, fyrir hönd innanríkisráðuneytisins, um áframhaldandi þjónustu við hælisleitendur. Gildir sá samningur út árið með heimild til framlengingar um ár.

Í samningnum er gert ráð fyrir að sveitarfélagið taki að sér þjónustu við allt að 70 hælisleitendur og í viðauka með samningnum er tilgreint í hverju þjónustan skal fólgin svo sem í húsnæði, framfærslu, heilbrigðisþjónustu, túlkaþjónustu, ráðgjöf og tómstundum. Skömmu fyrir jól var hliðstæður samningur gerður við Reykjavíkurborg.

Í frétt innanríkisráðuneytisins segir að samningarnir séu liðir í því hlutverki stjórnvalda að tryggja þjónustu við hælisleitendur meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum en á síðastliðnu ári hefur verið unnið að sérstöku átaki í hælismálum hvað varðar málsmeðferðartíma og búsetu hælisleitenda. Áframhaldandi samningur við Reykjanesbæ sé stór þáttur í því verkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×