Lífið

Fjölskyldufjör í Öskjuhlíð

Marín Manda skrifar
Lára G. Sigurðardóttir og Sigríður A. Sigurðardóttir sjá um skipulagningu dagsins.
Lára G. Sigurðardóttir og Sigríður A. Sigurðardóttir sjá um skipulagningu dagsins.
Höfundar bókanna Útivist og afþreying fyrir börn og Útilífsbók barnanna hvetja fjölskyldur til að taka þátt í þéttri og skemmtilegri dagskrá á sunnudaginn.

„Tíminn er svo dýrmætur og mikilvægt að nýta hann vel með börnunum. Þegar við erum saman úti í náttúrunni er auðveldara að veita þeim óskipta athygli og láta þau finna að maður er ekki einungis á staðnum heldur einnig til staðar,“ segir Sigríður A. Sigurðardóttir sem sér um skipulagningu Fjölskyldudagsins ásamt þeim Láru G. Sigurðardóttur, Pálínu Ó. Hraundal og Vilborgu A. Gissurardóttur. Þær eru höfundar bókanna Útivist og afþreying fyrir börn og Útilífsbók barnanna.

Fjölskyldudagurinn fer fram sunnudaginn 29. júní kl. 13–16 í Öskjuhlíð við Perluna. Þennan dag verður að finna spennandi uppákomur fyrir alla fjölskylduna en fjölmargir koma að ævintýralegum viðburðum dagsins.

Rathlaupafélagið Hekla býður gestum í rathlaup og Ævar vísindamaður mætir og sýnir gestum vísindatilraunir. Færni til framtíðar verður með hópleiki og Hjólafærni setur upp hjólaþraut. Jógahjartað verður með jóga fyrir fjölskylduna í fallegum lundi og einnig verður ljósmyndakeppni með veglegum vinningum. Upplifunarleiðangrar verða í boði Ferðafélags barnanna og Hálendisferðir flétta saman göngu og myndlist. Spunaspil og skylmingar eru einnig á dagskrá. 

„Það er ómetanlegt fyrir börnin að við sáum góðum fræjum fyrir framtíðina og stundum heilbrigt líferni með þeim. Þessi fræ sem við sáum fyrir börnin verða kannski ekki að blómi strax en verða það alveg örugglega einn daginn,“ segir Lára G. Sigurðardóttir.

Dagskrána má finna undir Facebook-síðum bókanna „Útivist og afþreying fyrir börn – Reykjavík og nágrenni“ og „Útilífsbók barnanna“ ásamt heimasíðunni www.fyrirborn.is.

Öskjuhlíðin býður upp á margt skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.