Innlent

Frítt í sund, á tónleika og söfn í Kópavogi fyrir framhaldsskólanemendur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Framhaldsskólanemendur geta nýtt sér valdar þjónustur í Kópavogi án endurgjalds.
Framhaldsskólanemendur geta nýtt sér valdar þjónustur í Kópavogi án endurgjalds. Vísir/Stefán
Framhaldsskólanemendur um land allt fá ókeypis bókasafnsskírteini, verður boðið á tiltekna tónleika í Salnum og fá frítt í sund á meðan á verkfalli kennara stendur.

Þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs Kópavogs í morgun. Nemendur eru auk þess hvattir til þess að nýta sér ókeypis aðgang að Gerðarsafni og öðrum söfnum í Kópavogi.

Með framtakinu vill Kópavogsbær kynna ungu fólki listir, menningu, og aðra þá afþreyingu sem í boði er í Kópavogi en um leið stuðla að fræðslu og virkni framhaldsskólanema á meðan á verkfalli kennara stendur.

„Við vonumst sannarlega til þess að framhaldsskólanemendur nýti tækifærið og kynni sér það sem Kópavogur hefur upp á að bjóða,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Í verkfallinu verður boðið upp á námskeið og fyrirlestra í Bókasafni Kópavogs. Einnig stendur leiðsögn um Héraðskjalasafn Kópavogs, Tónlistarsafn Íslands og Náttúrufræðistofu Kópavogs nemendum til boða.

Þá verður ókeypis á tónleikana Við slaghörpuna á laugardag og veittur afsláttur af tónleikum Sætabrauðsdrengjanna miðvikudaginn 26. mars.

Framhaldsskólanemendur geta nýtt sér góða lesaðstöðu í aðalsafni bókasafnsins og lesaðstöðu í ungmennahúsinu Molanum, sem einnig ætlar að lengja opnunartíma sinn í verkfallinu. Eins og alltaf er ókeypis inn á Gerðarsafn en þar stendur sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands yfir.

Kópavogsbær bendir á að öll þessi söfn eru á sama reitnum og því stutt að labba á milli. Þaðan er örstuttu spölur yfir í Sundlaug Kópavogs en einnig er ókeypis í Salalaug í verkfallinu.

Framhaldsskólanemendum verður kynnt tilboðið í gegnum nemendafélög skólanna. Þá eru ítarlegar upplýsingar að finna á vef Kópavogsbæjar. Til að nýta sér tilboðin þurfa nemendur að framvísa nemendaskírteini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×