Innlent

210 krónur geta skilið á milli lífs og dauða

Stefán Árni Pálsson skrifar
Með því að senda sms-skilaboðin STOPP í símanúmerið 1900 gefur fólk 630 krónur.
Með því að senda sms-skilaboðin STOPP í símanúmerið 1900 gefur fólk 630 krónur. Visir/daníel
UNICEF á Íslandi og Kiwanisumdæmið Ísland Færeyjar taka í dag höndum saman og hvetja landsmenn til að leggja baráttunni gegn stífkrampa lið. Á níundu hverri mínútu deyr nýbökuð móðir eða nýburi úr þessum kvalafulla sjúkdómi. Engu að síður má með bólusetningu koma í veg fyrir hvert einasta dauðsfall af hans völdum.

Samstarfið á Íslandi og í Færeyjum er liður í alþjóðlegri baráttu UNICEF og Kiwanis gegn stífkrampa. Meðal þess sem samtökin vilja vekja athygli á er að það kostar aðeins 210 krónur að bólusetja barnshafandi konu og ófætt barn hennar gegn þessari ömurlegu veiki.

„Það er furðuleg tilhugsun að svo lág upphæð geti skilið á milli lífs og dauða,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Með því að senda sms-skilaboðin STOPP í símanúmerið 1900 gefur fólk 630 krónur eða sem nægir fyrir bólusetningu fyrir þrjár mæður og ófædd börn þeirra.

Hálfrar aldar saga Kiwanis á Íslandi

Um þessar mundir fagnar Kiwanis því að 50 ár eru liðin frá því að saga hreyfingarinnar hófst hérlendis með stofnun Kiwanisklúbbsins Heklu. Af því tilefni verður í dag opnuð sögusýning í Kringlunni þar sem gestir og gangandi geta fræðst um sögu hreyfingarinnar. Félagar í Kiwanis munu auk þess dreifa upplýsingum um samstarfið við UNICEF og mikilvægi þess að stöðva stífkrampa fyrir fullt og allt.

Þótt bakterían sem veldur stífkrampa fyrirfinnist í öllum löndum jarðar hefur sjúkdómnum víðast hvar verið útrýmt með bólusetningu. Á árum áður var stífkrampi til að mynda landlægur meðal ungbarna á Íslandi og dánartíðni geysilega há. Í dag er hann er hins vegar nánast óþekktur á Vesturlöndum.

Raunhæft að stöðva stífkrampa

Tekist hefur að útrýma stífkrampa í 34 löndum frá síðustu aldamótum og lækka dánartíðni nýbura af völdum sjúkdómsins um hvorki meira né minna en 90% á tuttugu árum. Hann er þó enn að finna í 25 ríkjum. Samstarf Kiwanis og UNICEF er veigamikill þáttur í því markmiði að sigrast endanlega á stífkrampa.

„Alþjóðlega Kiwanishreyfingin og UNICEF eiga að baki árangursríkt samstarf í baráttunni fyrir bættum lífsskilyrðum barna á heimsvísu. Nú leggjum við hér á Íslandi og í Færeyjum okkar lóð á vogaskálarnar í baráttu beggja samtaka gegn stífkrampa,“ segir Dröfn Sveinsdóttir, umdæmisstjóri Kiwanis á Íslandi og í Færeyjum.

„Meirihluti mæðra og nýbura sem látast úr stífkrampa búa á svæðum þar sem konur eru fátækar og hafa takmarkaðan aðgang að heilsugæslu og upplýsingum um öruggar barnsfæðingar. Þetta eru mæður og börn sem við megum ekki bregðast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×