Innlent

Tíu hraðhleðslustöðvar í sumarbyrjun

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Fyrsta harðhleðslustöð fyrir rafbíla á Íslandi var tekin í notkun í dag. Kristbjörg Magnúsdóttir ljósmóðir var fyrst til að hlaða bíl sinn við hús Orkuveitunnar á Bæjarhálsi í dag. Tíu stöðvar verða teknar í notkun fyrir sumarbyrjun sem verður bylting fyrir rafbílaeigendur á suðvesturhluta landsins.

Í dag er um 90 rafbílar á götum landsins og langflestir á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að því að fjölga þeim til muna enda rafmagn mun ódýrari aflgjafi en olía.

„Við munum opna tíu stöðvar á sunnan- og vestanverðu landinu þar sem flestir rafbílaeigendur eru búsettir. Þetta er mikið framfaraspor og mjög skemmtilegt verkefni,“ segir Ásdís Gíslason, markaðsstjóri hjá Orku náttúrunnar.

30 mínútur að ná 80% hleðslu

Nýja hraðhleðslustöðin í Bæjarhálsi er mjög auðveld í notkun og aðeins tekur um 30 mínútur að ná 80% hleðslu. Það mun breyta miklu fyrir rafbílaeigendur.

Ole Henrik Hannisdahl er einn helsti sérfræðingur Norðmanna á sviði rafbíla. Þar hefur fjölgun rafbíla farið fram úr björtustu vonum og er stefnt að þeir verði 200 þúsund talsins árið 2020. Ole er bjartsýnn á framtíð rafbílsins á Íslandi.

„Mér sýnist mjög bjart framundan hvað varðar rafbíla á Íslandi. Í fyrsta lagi fáið þið hraðhleðslunet sem gerir kleift að aka um og nota rafbíla á Reykjavíkursvæðinu á hverjum degi,“ segir Ole Henrik.

„Í öðru lagi þá eiga Íslendingar mikið af náttúrulegri orku og rafmagni. Ef þið getið skipt út innfluttri olíu með rafmagni sem er framleitt á Íslandi þá er það ekki aðeins gott fyrir umhverfið heldur einnig efnahaginn. Rafbíllinn er kjörinn fyrir Ísland.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×