Innlent

Tímaflakk á Alþingi

Eva Bjarnadóttir skrifar
Alþingi.
Alþingi. fréttablaðið/gva
Reglulega koma fram hugmyndir á Alþingi um að breyta tímareikningi á Íslandi, en ekki eru allir sammála um hvort flýta eigi klukkunni eða seinka henni.

Vilhjálmur Egilsson, rektor á Bifröst og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði í þrígang fram frumvarp til laga á Alþingi um breytingu á tímareikningi, sem gerði ráð fyrir að flýta klukkunni yfir sumartímann til samræmis við reglur um sumartíma í Evrópu.

Vilhjálmur segist enn bera þetta mál fyrir brjósti þrátt fyrir að fjórtán ár séu liðin síðan hann lagði frumvarp sitt síðast fram. Hann hefur bent á fjölmarga kosti þess að flýta klukkunni, meðal annars áhrifin á útiveru landans eftir að vinnudegi lýkur. „Birtan nýtist betur á kvöldin fram á haust, sem gagnast vel golfurum og öðrum sem vilja vera úti við,“ segir hann.

Vilhjálmur hefur jafnframt bent á að ef klukkunni yrði flýtt yrði samskiptatími við Evrópu sá sami allt árið og ekki þyrfti að breyta flugáætlunum á sumrin. Þá segir í frumvarpi Vilhjálms frá árinu 2000 að ef klukkunni yrði flýtt geti „skapast sérstök sumarstemning eins og gerist í nágrannalöndum í Evrópu“.

Þingflokkur Bjartrar framtíðar lagði á síðasta ári til að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund allt árið, sem þýðir að Íslendingar myndu vakna klukkutíma seinna á daginn heldur en þeir gera núna.

Þeirri tillögu til stuðnings er vísað til rannsókna sem leitt hafi í ljós að líkamsklukka fólks stilli sig eftir birtutíma. Þá hafi skammdegið slæm áhrif á árstíðabundið þunglyndi sem gjarnan komi fram á haustin og veturna. Breytt klukka myndi samkvæmt því bæta líðan, laga svefnvenjur og jafnvel spara útgjöld í heilbrigðiskerfinu vegna svefn- og þunglyndislyfja.

Vilhjálmur er vitaskuld ekki sammála rökum Bjartrar framtíðar. „Þessar rannsóknir á þunglyndi sem vísað er til eru svo þröngar. Það mætti allt eins draga þá ályktun að fólk á Vesturlandi sé almennt þunglyndara heldur en fyrir austan,“ segir Vilhjálmur, sem sendi Alþingi umsögn um tillögu Bjartrar framtíðar þegar hún kom fram.

„Í tillögunni hefur heldur ekki verið metið hvaða áhrif útivist og íþróttir hafa á heilsu fólks og hvað myndi tapast ef takmarka ætti birtutímann í eftirmiðdaginn,“ bendir hann á að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×