Innlent

Staða safnstjóra á nýju safni auglýst

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Staða safnstjóra hjá nýju safni í eigu Reykjavíkur hefur verið auglýst til umsóknar af menningar- og ferðamálasviði borgarinnar. Starfið mun fela í sér samruna og samþættingu starfsemi Minjasafns Reykjavíkur, Víkurinnar – Sjóminjasafnsins í Reykjavík, Ljósmyndasafns Reykjavíkur og Viðeyjar.

Safnið mun verða eitt stærsta safn Íslands og hafa umsjón með menningarminjum í Reykjavík og ber ábyrgð á söfnum, skráningu, rannsóknum og miðlun á fjölbreyttum safnkosti, samkvæmt tilkynningu frá menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkur.

,,Þetta er einstaklega spennandi verkefni fyrir þann sem velst til að leiða nýtt safn“, segir Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs, í tilkynningunni, en vinna við undirbúning samruna áðurnefndra menningarstofnana er komin á fulla ferð.

,,Markmiðið með sameiningunni er að búa til sterkari einingu, bæði faglega og rekstrarlega, og sækja fram eftir margra ára samdrátt í rekstrarumhverfi safnanna í borginni. Við sjáum mikil tækifæri í að móta nútímalega og metnaðarfulla menningarstofnun sem hefur fjölmarga snertifleti við borgarbúa og gesti.“

Jafnframt mun safnið bera ábyrgð á skráningu fornleifa, húsa og mannvirkja, rannsóknum og eftirliti þeirra og vera ráðgjafi borgaryfirvalda um verndun menningarminja í Reykjavík og um önnur menningarsöguleg verkefni.

Umsóknarfrestur rennur út þann 19. janúar nk. og gert er ráð fyrir að viðkomandi hefji störf eigi síðar en 15. mars nk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×