Innlent

Óttast að skuldaaðgerðir dugi skammt

Höskuldur Kári Schram skrifar
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason óskaði eftir upplýsingum frá forsætisráðherra í skriflegri fyrirspurn um áhrif skuldaaðgerða á einstaka tekju- og skuldahópa.

Í svari ráðherra kemur fram að ráðuneytið búi ekki yfir upplýsingum til að leggja mat á þessi áhrif.

„Það er auðvitað stóralvarlegt mál ef menn ætla að leggja upp í útgjöld upp á 80 milljarða án þess að vita hvað áhrif það hafi og hvort að þau útgjöld dugi til að leiðrétta í reynd þann forsendubrest sem menn segjast ætla að leiðrétta. Áhyggjuefni mitt er að það verði einfaldlega niðurstaðan að fullt af fólki muni áfram sitja eftir með sinn forsendubrest óbættan og síðan muni miklar fjárhæðir fara til fólks sem ekki hefur orðið fyrir neinu tjóni og jafnvel hagnast á þróun undanfarinnar ára,“ segir Árni Páll.

Árni segir að það hljóti að vera á ábyrgð stjórnvalda að meta fyrirfram hvaða vanda er ætlað leysa með þessum aðgerðum.

„Ég held að það sé augljóst útaf þessu svari að kalla eftir upplýsingum frá Seðlabankanum og hvort að bankinn geti greint þetta að einhverju leyti. Það er auðvitað æskilegt ef fjármálafyrirtækin geta eitthvað gert í því efni. Svo þurfum við að kalla eftir því að aðilar vinnumarkaðarins knýi á um slíka úttekt. Það er verulegt áhyggjuefni ef að allir þessir peningar munu ekki duga til þess að fækka, nema óverulega, í þeim hópi sem nú þegar er í alvarlegum skuldavanda,“ segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×