Erlent

Reyndu að ræna ösku Freud

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Mynd/AP
Breska lögreglan leitar nú þjófa sem gerðu tilraun til þess að stela ösku Sigmund Freud úr Golders Green líkbrennslunni í London. Um 2300 ára grískt duftker sem innihélt ösku Freuds og eiginkonu hans, Mörthu, fannst þó nokkuð skemmt í líkbrennslunni á nýársdag og segir Daniel Candler, yfirlögregluþjónn bresku lögreglunnar, verknaðinn ógeðfelldan.

„Þrátt fyrir að það hafi orðið óbætanlegt tjón á sannkölluðum forngrip þá er það alveg hreint ótrúlegt að einhver hafi reynt að stela líkamsleifum.“

Geð- og taugalæknirinn Sigmund Freud flutti til Bretlands frá Austurríki árið 1938 en hann lést í London ári síðar, 83 ára að aldri. Freud er upphafsmaður sálgreiningar og hafa kenningar hans haft mikil áhrif á hugmyndir almennings um sálarlífið.

ABC news greinir frá.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×