Innlent

"Störfum saman þótt kaktusar séu í hópnum“

Elimar Hauksson skrifar
Oddvitar flokkanna sem mynda meirihlutann í bæjarstjórn Kópavogsbæjar segja meirihlutann halda þrátt fyrir að Gunnar I. Birgisson hafi gengið til liðs við minnihlutann  í atkvæðagreiðslu á bæjarráðsfundi í gær.
Oddvitar flokkanna sem mynda meirihlutann í bæjarstjórn Kópavogsbæjar segja meirihlutann halda þrátt fyrir að Gunnar I. Birgisson hafi gengið til liðs við minnihlutann í atkvæðagreiðslu á bæjarráðsfundi í gær. Mynd/Vilhelm
Formenn framsóknarfélaganna í Kópavogi og formaður fulltrúaráðsins funduðu í kvöld ásamt Ómari Stefánssyni, bæjarfulltrúa flokksins í Kópavogi. Ómar segir niðurstöðu fundarins hafi verið að halda meirihlutasamstarfinu í bæjarstjórn gangandi.

„Ég talaði við helstu trúnaðarmenn okkar og það var ekki vilji til þess að slíta samstarfinu. Við höfum ákveðnar óskir og væntingar sem við gerum til áframhaldandi samstarfs en við munum fara yfir þau mál á morgun, ég, Ármann og Rannveig,“ segir Ómar.

Undir þetta tóku bæði Ármann Kr., bæjarstóri Kópavogsbæjar og Rannveig H. Ásgeirsdóttir. Rannveig segir samstarfið hafa gengið vel hingað til og ekki sé ástæða til að slíta samstarfinu núna.

„Við getum öll sammælst um það að meirihlutinn heldur áfram að starfa saman þrátt fyrir kaktusa í hópnum,“ segir Rannveig.

Gunnar I. Birgisson hefur reynst meirihlutanum erfiður en hann samþykkti í gær tillögu minnihluta bæjarstjórnar á bæjarráðsfundi um íbúðarkaup og framkvæmdir á tveimur fjölbýlishúsum í Kópavogi og fór þar með gegn sitjandi meirihluta. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstóri, segir samstarf meirihlutans vera traust og segir það ekki hafa komið sér að óvart að Gunnar hafi gengið til liðs við minnihlutann enda hafi hann og Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar, áður náð saman.

„Gunnar og Guðríður hafa áður náð saman þannig að þetta er ekkert nýtt fyrir mér. Samstarf þessara flokka (meirihlutans) er traust en ég leyni því ekki að svona uppákomur eiga ekki að eiga sér stað,“ segir Ármann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×