Innlent

Myndaði fjölda háhyrninga í Grundarfirði - návígið ótrúlegt

„Ætli þetta hafi ekki verið um 15-20 hvalir þar sem við vorum," segir björgunarsveitarmaðurinn og Grundfirðingurinn Tómas Logi Hallgrímsson, sem náði ótrúlegu myndbandi af háhyrningum sem leituðu ætis í Grundafirði síðasta sunnudag.

Tómas Logi, móðir hans og faðir, ákváðu að nýta fallegan daginn til þess að fara út á báti föður Tómasar Loga, og þannig náði hann þessum myndum. „Þeir voru þarna til þess að ná í æti," segir Tómas Logi en nóg er af síld í firðinum þessa dagana.

Að sögn Tómasar er þetta í annað skiptið sem hann sér svona marga háhyrninga í firðinum, „síðast var ég ekki með myndavél," útskýrir hann. Tómas Logi nýtti svo sannarlega tækifærið í annað skiptið og náði myndum af hvölunum.

En hvernig var návistin við þessar stóru skepnur?

„Það er náttúrulega ótrúlegt. Maður áttar sig til dæmis ekki á stærð skepnanna fyrr en maður getur næstum teygt sig í þær. Ég þurfti stundum að líta til beggja hliða til þess að sjá allan hvalinn," segir Tómas Logi um þennan ævintýralega dag.

Myndbandið er hægt að skoða hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×