Íslenski boltinn

Kristján: Það vantaði nýja rödd

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson. Mynd / Daníel
Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn eftirmaður Zoran Daníel Ljubicic sem var rekinn sem þjálfari Keflavíkur í gær.

Zoran er þriðji þjálfarinn í Pepsi-deild karla sem hættir á miðju tímabili. Hinir eru Þorvaldur Örlygsson hjá Fram og Þórður Þórðarson hjá ÍA.

„Ég er mjög glaður að fara þjálfa Keflavík aftur,“ segir Kristján Guðmundsson, nýráðinn þjálfari Keflavík.

„Þetta er samt sem áður sérstök tilfinning en ég hef aldrei tekið við liði í miðju móti. Það hefur verið vinnuregla hjá mér að vera með lið frá upphafi undirbúningstímabilsins og út mótið og því hef ég aldrei komið inn þegar annar þjálfari missir starfið sitt.“

„Þeir segja að þetta sé líf þjálfarans sem er alveg rétt, ég hef kynnst þessu frá báðum hliðum. Ég hlakka virkilega mikið til, þetta verður mjög gaman.“

Zoran Daníel Ljubicic var í gær rekinn sem þjálfari liðsins.

„Ég fékk símtal í gærkvöldi þar sem ég var beðin um að koma á fund. Stjórn Keflavíkur fannst vanta nýja rödd og ég var tilbúinn að hjálpa Keflavík.“

„Núna fer ég í það að skoða liðið í heild sinni og fara yfir tölfræðiþætti leikmanna og annað. Þetta mun taka ákveðin tíma og síðan kemur í ljós hvort ég þurfi að styrkja liðið meira. Ég mun fá stuðning frá stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur ef það þarf að styrkja liðið í glugganum, ég á bara eftir að sjá hvort þess þurfi.“

Kristján þjálfari Keflavík á árunum 2005-2009 og litlu munaði að hann næði að gera liðið að Íslandsmeisturum árið 2008.

„Ég þekki mig vel í Keflavík og allar aðstæður þar, en það var aðalástæðan fyrir því að ég tók þetta verkefni að mér.“




Tengdar fréttir

Zoran rekinn frá Keflavík

Zoran Daníel Ljubicic hefur verið rekinn sem þjálfari Keflavíkur í Pepsi-deild karla, en Keflvíkingar sendu frá sér tilkynningu þess efnis í morgun.

Kristján tekur við Keflavík

Kristján Guðmundsson tekur við þjálfun Keflavíkur í Pepsi-deild karla en Þorsteinn Magnússon, formaður knattspyrnudeildar félagsins, staðfesti það við Vísi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×