Lífið

Djókaín hefst á Höfn

Sara McMahon skrifar
Hugleikur Dagsson hefur uppistandstúr sinn um landið á Höfn í Hornafirði í kvöld.
Hugleikur Dagsson hefur uppistandstúr sinn um landið á Höfn í Hornafirði í kvöld. Fréttablaðið/anton
„Það eru þrjú stopp í þessum túr. Höfn annað kvöld, Egilsstaðir á fimmtudag og Akureyri á föstudag,“ segir uppistandarinn og listamaðurinn Hugleikur Dagsson, sem hefur uppistandstúr sinn á Höfn í Hornafirði á morgun.

Sýningin ber titilinn Djókaín og á meðal umfjöllunarefna Hugleiks eru klámvæðingin, íslenska tungumálið, barneignir og hákarlar.

„Þetta er hálfgerð „best of“ sýning. Ég fer með efni alveg frá því ég byrjaði í uppistandi. Sýningin er um sjötíu mínútur að lengd, nema ég sé æstur og tali hratt, þá gæti hún verið styttri.“

Aðspurður segir hann ekki erfitt að standa einn á sviði í svo langan tíma. „Þegar fyrsti hláturinn heyrist verður maður nokkuð öruggur og vill þá helst ekkert fara af sviðinu. En svo er maður aldrei betri en salurinn, ef hann er ekki í stuði, þá dett ég ekki í stuð. Þetta er svolítið eins og samtal, nema það er bara ég sem má tala,“ segir hann að lokum.

Sýningin á Höfn fer fram í Sindrabæ. Sýningin á Egilsstöðum fer fram í menntaskóla bæjarins og sýningin á Akureyri fer fram í Hofi, miða má kaupa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.