Innlent

Utanríkisráðherra: Skelfilegt ef ekki verði hægt að refsa fyrir efnavopnaárás

Heimir Már Pétursson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir skelfilegt til þess að hugsa að hægt sé að beita efnavopnum gegn saklausum borgurum í Sýrlandi án þess að þeim sem það geri sé refsað. Hann styðji hins vegar ekki árás á landið án haldbærra gagna.

Utanríkisráðherra sat fund utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Visby í Svíþjóð í dag þar sem málefni Sýrlands voru m.a. rædd. Hann segir eðlilegt að fjallað sé um brot af þessu tagi fyrir dómstólum og því hafi Ísland stutt að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna vísi málefnum Sýrlands til Alþjóðasakamáladómstólsins.

Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra Danmerkur sagði hins vegar í dag að Danir væru skuldbundnir til að styðja hernaðaraðgerðir í Sýrlandi enda útséð með að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna nái saman um aðgerðir.

Gunnar Bragi bindur aftur á móti vonir við niðurstöður rannsókna fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi.

„Og mögulega þær sannanir sem Bandaríkjamenn virðast búa yfir og Bretar, Frakkar og fleiri hafa sagt að séu fullnægjandi, geri það að verkum að öryggisráðið geti tekið afstöðu í málinu. Ég vil ekki útiloka það fyrr en það er fullreynt og ég held að það sé ekki fullreynt,“ segir Gunnar Bragi.

Víða um heim eru menn með varan á varðandi stuðning við innrás á grundvelli sannana sem þessi ríkis segjast hafa,  í ljósi aðdragandans að innrásinni í Írak á sínum tíma. - Eru íslensk stjórnvöld með varan á m.a. í ljósi fortíðarinnar í þessum efnum?

„Það er alvegt ljóst að menn verða að leggja fyrir okkur trúverðug gögn því það vill enginn að það endurtaki sig að menn fari í einhverjar slíkar æfingar án haldbærra gagna. En það er hins vegar á sama tíma skelfilegt að hugsa til þess að ef hægt væri að leiða 99,9 prósent líkur að því hver gerði þetta, að ekki sé hægt að refsa þeim aðila með einhverjum hætti,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×