Innlent

Yfirsteig enskuhræðslu í beinni sjónvarpsútsendingu

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
„Ég tók stórt skref í að sigrast á hræðslu minni að tala ensku á almannafæri og skrefið var það stórt að ég gerði það fyrir allan heiminn,“ skrifaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum formaður Heimdallar, á Facebook-síðu sína í fyrradag. Hún var þátttakandi vefsjónvarpsþættinum The Stream á Al Jazeera sjónvarpstöðinni á mánudagskvöld þar sem hún tók þátt í því að spyrja Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, út í endurreisn íslensks efnahagslífs eftir hrun.


Þátturinn var á ensku sem hefur reynst Áslaugu erfið í gegnum tíðina. „Enska var alltaf eina fagið sem reyndist mér erfitt og eina fagið sem ég féll í á framhaldsskólagöngunni,“ segir Áslaug í samtali við Vísi.is.

„Ég hef í kjölfarið verið mjög feimin við að tala ensku á almannafæri. Áður fyrr þegar ég var erlendis héldu margir að ég væri feimin en það hef ég aldrei verið. En ég hef hinsvegar alltaf verið mjög smeyk að tala ensku fyrir framan aðra og því var þetta nokkuð stórt skref fyrir mig, mér hefði ekki dottið í hug að taka þetta að mér fyrir nokkrum árum.“
Áslaug hélt fyrir nokkrum árum í enskunám í Cambridge í Englandi og hefur verið að bæta sig jafnt og þétt í enskunni. Hún segist hafa verið búin að undirbúa sig vel fyrir þáttinn á Al Jazeera. Hún sat heima í sofunni hjá sér og spurði Sigmund Davíð spurninga í gegnum Google +.

„Þetta gerði mig alveg vel stressaða. Maður lærir hins vegar ekkert án þess að reyna á sig og demba sér í djúpu laugina. Ég var búin að undirbúa spurningarnar ágætlega og lesa þær nokkrum sinnum fyrir framan spegilinn. Ég verð mjög sjaldan stressuð fyrir því að koma fram en annað á við þegar ég þarf að gera það á ensku. Ætli það eigi þó ekki við um fleiri,“ segir Áslaug.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá The Stream þáttinn í heild sinni. Áslaug spurði Sigmund tvívegis í þættinum og var síðari spurninginn nokkuð krefjandi fyrir forsætisráðherann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×