Innlent

Biðja um stærra framlag til Spennistöðvarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndir/GVA
Ákveðið hefur verið að fara í framkvæmdir í Spennistöðinni svokölluðu, sem er fyrrum spennistöð Orkuveitu Reykjavíkur áföst Austurbæjarskóla, og innrétta þar félags- og menningarmiðstöð. Þar með á að leysa úr áratugalöngum húsnæðisvanda skólans og frístundar.

Einungis 20 milljónir eru þó áætlaðar í framkvæmdina á fjárhagsáætlun 2014, en kostnaður við fyrsta áfanga verkefnisins er áætlaður 80 milljónir króna. Stjórn foreldrafélagsins hefur ákveðið að senda áskorun á borgarfulltrúa þar sem skorað er á þá að setja meiri fjármuni í verkið strax á næsta ári.

„Við erum alltaf svo bjartsýn í skólasamfélaginu og vonum að menn sjái að sér og geri betur,“ segir Guðmundur Sighvatsson, skólastjóri Austurbæjarskóla.

„Hugmyndin er nota Spennistöðina sem aðstöðu fyrir skólann á skólatíma, frístundaaðstöðu eftir hádegi og svo væri hægt að samnýta þetta sem félagsmiðstöð. Íbúasamtök gætu einnig óskað eftir aðstöðu þegar á þarf að halda. Um er að ræða fjölnota sal sem íbúasamfélagið getur leitað til með eitt og annað,“ segir Guðmundur. Hugmyndin um nýtingu Spennistöðvarinnar eru komnar frá íbúaþingi sem haldið var í skólanum, með þátttöku nemenda.

„Húsnæðisvandinn er búinn að vera viðvarandi mjög lengi. Við höfum verið í litlu húsnæði á fjórðu hæð, en það er ekki hentugt að vera með börn á fjórðu hæð í félagsstarfi. Þannig að við erum komin í lausa kennslustofu á lóð skólans, þar sem þrjú hús eru. Þetta eru 60 fermetra hús - það er ekki mikið hægt að gera þar.“

Gólfflötur Spennistöðvarinnar er um 340 fermetrar en áætlað er að byggja milliloft yfir hluta húsnæðisins svo það yrði alls 595 fm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×