Innlent

Veiða vongóða fræðimenn í falsvef Jökuls

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Bryndís Brandsdóttir jarðvísindamaður er ritstjóri Jökuls. Hún hefur fengið fjölda fyrirspurna vegna falsvefjanna sem reyna að rukka fólk fyrir greinar sem aldrei fá að birtast.
Bryndís Brandsdóttir jarðvísindamaður er ritstjóri Jökuls. Hún hefur fengið fjölda fyrirspurna vegna falsvefjanna sem reyna að rukka fólk fyrir greinar sem aldrei fá að birtast. Fréttablaðið/GVA
Opnaður hefur verið ný vefsíða fræðiritsins Jökuls til þess að bregðast við tveimur falssíðum sem glæpamenn hafa sett upp á netinu.

Falssíðurnar eru svo notaðar til þess að hafa fé af fræðimönnum sem þar falast eftir því að fá birtar greinar. Nýja og rétta síðan er með vefslóðina www.jokulljournal.is, en önnur falssíðan ber sömu slóð utan enda á .com.

Bryndís Brandsdóttir, jarðvísindamaður og ritstjóri Jökuls, segir svikamyllur sem þessar þekktar og eigi jafnvel stórfyrirtæki í vandræðum með að fá þeim lokað. „Við tökumst því bara á við þetta á netinu,“ segir hún. Tilraunir til að fá falssíðunum lokað hjá vefhýsingarfyrirtækjum þeirra hafi engan árangur borið.

Fræðirit segir Bryndís metin eftir því hversu mikið sé til þeirra vitnað og því hafi Jökull verið í gagnagrunnum yfir slík rit. „Þess vegna sáu einhverjir sér leik á borði til þess að reyna að græða á grunlausum vísindamönnum,“ segir hún. Fleiri gömul tímarit sem ekki höfðu komið sér upp heimasíðum segir hún að hafi lent í því sama.

„Aðaltilgangurinn er náttúrlega að græða peninga, en erlendis er algengt að fólk þurfi að borga fimm til sex hundruð dali fyrir birtingu. Á annari falssíðunni sé ég að farið er fram á 600 dali,“ segir hún, en upphæðin svarar til ríflega 70 þúsund króna.

Bryndís segist ekki vita til þess að vísindamenn hafi fallið í gryfjuna, en hefur fengið fjölda fyrirspurna og falssíðurnar vakið nokkra athygli á fræðiritinu.

„Það kaldhæðnislega er að þeir reyna að stela í mínu nafni. Ég var óhress með það í fyrstu, en þetta gerir hins vegar að fólk sendir fyrirspurnir til mín og ég er búin að vera sveitt að svara fyrirspurnum út af þessu í sumar.“

Bryndís segir nálægt 20 manns hafa haft samband við hana hvaðanæva úr heiminum, en einnig hafi fjöldi fyrirspurna borist alþjóðaskrifstofu Háskólans, en símanúmer hennar er einnig gefið upp á öðrum vefnum.

Fyrstu fyrirspurnina vegna vefsins segist Bryndís hafa fengið í lok maí, en í júlí virðist vefirnir hafa komist inn á lögmætar skrár yfir fræðirit, svo sem Google Scholar, og þá hafi fyrirspurnum fjölgað mjög.



Fræðimaður fjallar um falssíður

Bandaríski fræðimaðurinn Jeffrey Beall vakti athygli á því á vef sínum, Scholarly Open Access, á þriðjudag, að fræðiritið Jökull væri nýjasta viðbótin í hóp sérfræðirita sem misyndismenn á netinu hafi notað sem skálkaskjól fyrir fjárplógsstarfsemi sína.

Hann hefur áður greint frá viðlíka málum, svo sem gervisíðu sem búin var til fyrir ritin Archives des Sciences og Wulfenia.

Beall segir svikurunum sífellt fara fram. Þannig virðist Whois-færsla eða lénaskrá annars svikavefsins fyrir Jökul mjög sannfærandi, með heimilsfang síðuhaldara skráð í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×