Innlent

Máli vísað frá þrátt fyrir játningu

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Svavar Kjarrval Lúthersson braut lög um helgidagafrið en verður ekki refsað þrátt fyrir að hafa játað.
Svavar Kjarrval Lúthersson braut lög um helgidagafrið en verður ekki refsað þrátt fyrir að hafa játað.
Meðlimur lífsskoðunarfélagsins Vantrúar var ekki ákærður þrátt fyrir að hafa gengist við því hjá lögreglu að hafa stýrt bingóspili á föstudaginn langa. Slíkt háttalag er bannað samkvæmt lögum um helgidagafrið.

„Ég vildi fá á hreint hver lagaleg staða bingósins var svo ég sendi lögreglustjóra bréf sem innihélt játningu mína um að hafa tekið þátt í ólögmætu athæfi. Lögreglustjórinn vísaði hins vegar málinu frá og ég kæri þá ákvörðun til ríkissaksóknara. Þaðan fékk ég svo svar í bréfi,“ segir Svavar Kjarrval Lúthersson bingóspilari.

Í bréfinu frá ríkissaksóknara segir meðal annars að umrædd háttsemi kæranda, og eftir atvikum annarra sem stóðu að páskabingóinu, verði fyrst og fremst virt sem liður í stjórnarskrárvörðum rétti manna til tjáningar- og fundafrelsis.

Svavar segir að samkvæmt þessu hljóti að mega skoða það fyrir alvöru hvort lögin séu ekki úrelt þar sem þau stangist á við önnur lögvarin réttindi fólks.

„Þau eru löngu úrelt, það er einmitt það sem við erum búnir að vera að benda á. Lögreglan bregst ekki við þessu lögbroti og það er athyglisvert á margan hátt,“ segir Svavar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×