Fótbolti

Markmannsstaðan ekkert vandamál

Óskar Ófeigur Jónsson í Kalmar skrifar
Þóra, Sandra og Guðbjörg vilja allar vera í aðalhlutverki með landsliðinu í Svíþjóð.
Þóra, Sandra og Guðbjörg vilja allar vera í aðalhlutverki með landsliðinu í Svíþjóð. fréttablaðið/óskaró
Allir 23 leikmenn Íslands tóku þátt í æfingu liðsins í Kalmar en Ísland hefur leik á EM í Svíþjóð á morgun þegar liðið mætir Norðmönnum. Mesta óvissan hefur verið í kringum markvörðinn Þóru B. Helgadóttur sem meiddist aftan í læri fyrir fjórum vikum. Þóra hefur verið aðalmarkvörður liðsins síðustu ár en það mun líklega ekki koma í ljós fyrr en nær dregur hvort hún fái að spila. Þóra æfði í gær og það veit á gott.

„Mér líður vel núna en mér skilst að það geti brugðið til beggja vona með slík meiðsli. Í dag verð ég með í fullri upphitun og ef það gengur vel þá fæ ég vonandi að fara í meira. Ég krossa bara fingur,“ sagði Þóra í samtali við Fréttablaðið fyrir æfinguna í gær. Hún kláraði hana og er skrefinu nær því að vera leikfær.

Gerir engum gott að spila meidd

„Það hjálpar ekkert liðinu ef ég meiðist á þriðju mínútu og við þurfum að eyða skiptingu í það. Ég get fullvissað þig um að ég ræð engu. Ég verð spurð hvernig mér líður en sjúkraþjálfarinn, læknirinn og Siggi munu taka þessa ákvörðun,“ sagði Þóra.

Þóra hefur reynt að líta raunhæft og jákvætt á erfiða stöðu sína. „Ég hef reynt að hugsa ekki of mikið um þetta og einbeitt mér bara að því að taka næsta skref. Það hefur gengið mjög vel en ég er tæp á tíma. Svona á að taka sex vikur og ég er búin með fjórar,“ segir Þóra, en íslenska landsliðið á fleiri góða markmenn.

„Við erum allar þrjár reynslumiklir markmenn og engin okkar er ung. Stelpurnar aftast eru kannski aðeins vanari mér en ég hef engar áhyggjur,“ segir Þóra um sig og hina markverðina í hópnum, þær Guðbjörgu Gunnarsdóttur og Söndru Sigurðardóttur.

Við erum allar góðar

Guðbjörg hefur staðið sig frábærlega í sænsku og norsku deildinni og hefur þurft að bíða þolinmóð á bekknum hjá íslenska landsliðinu. Nú gæti hins vegar kallið komið í gríðarlega mikilvægum leik. „Fyrsti leikurinn er hrikalega mikilvægur og við vitum það best sjálfar. Ég reyni bara að hugsa sem minnst um þetta og ætla bara að reyna að standa mig vel á æfingunum. Ég hef fengið einn og hálfan leik á þessu ári og fannst ég koma ágætlega út úr því. Ég vona bara það besta,“ sagði Guðbjörg.

„Það vilja allir spila og það skiptir ekki máli hver okkar það er. Ég held bara að við séum vel sett með markmenn því Sandra er líka mjög góður markvörður. Sama hver spilar þá tel ég að markmannstaðan sé engin vandamálastaða,“ segir Guðbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×