Fótbolti

Alfreð: Það væri gaman að fá sigur í afmælisgjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alfreð Finnbogason heldur upp á 24 ára afmælið sitt í dag og getur fengið þrjú stig í afmælisgjöf því SC Heerenveen mætir þá RKC Waalwijk á útivelli í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld.

„Sigur á RKC væri góð afmælisgjöf," sagði Alfreð í viðtali við heimasíðu SC Heerenveen. Hann hefur skorað í síðustu sex leikjum sínum í deildinni og liðið náði ekki að skora í leiknum sem hann missti af vegna meiðsla.

„Ég gæti gefið sjálfum mér afmælisgjöf með því að skora í leiknum en stigin skipta meira máli. Ég er liðsmaður og liðið gengur fyrir. Ég get haldið upp á daginn eftir leikinn en aðeins ef við vinnum. Þá tökum við fram kampavínið og kökuna," sagði Alfreð léttur að vanda.

Alfreð hefur skorað fimmtán mörk í fyrstu sautján leikjum sínum með SC Heerenveen og aðeins einn leikmaður í sögu félagsins hefur gert betur. Brasilíumaðurinn Afonso Alves skoraði fimmtán mörk í fyrstu fimmtán leikjum sínum með liðinu árið 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×