Fótbolti

Alfreð kominn í 20 mörk | Hafði betur gegn Guðlaugi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð í leik með Heerenveen.
Alfreð í leik með Heerenveen. Nordic Photos / Getty Images
Alfreð Finnbogason hafði betur gegn Guðlaugi Victor Pálssyni í Íslendingaslag í hollensku úrvalsdeildinni í dag er Heerenveen vann 3-1 sigur á NEC Nijmegen.

Alfreð fékk tvö góð færi til að skora í fyrri hálfleik en nýtti þau ekki. Ruud Boymans kom svo NEC yfir á 62. mínútu en Alfreð náði að jafna leikinn með marki átta mínútum síðar.

Þetta var hans 20. mark á tímabilinu en Alfreð er næstmarkahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar.

Filip Djuricic skoraði svo tvívegis eftir þetta og tryggði sínum mönnum góðan sigur. Þetta var fjórði sigur Heerenveen í röð en liðið er nú í níunda sæti deildarinnar með 35 stig. NEC er í áttunda sæti með 36 stig.

Alfreð spilaði allan leikinn fyrir Heerenveen og Guðlaugur Victor sömuleiðis fyrir NEC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×