Innlent

Ölfusréttir haldnar í góðu veðri í gær

Gott veður var í Ölfusi í gær og gekk smölun ágætlega.
Gott veður var í Ölfusi í gær og gekk smölun ágætlega. mynd/dfs.is
Margt fólk mætti í Ölfusréttir í gær til að draga um 900 fjár í dilka. Ölfusréttirnar voru byggðar í núverandi mynd árið 1977 og taka um tólf þúsund sauðfjár.

Magnús Hlynur Hreiðarsson, ritstjóri og fréttamaður á Selfossi, var einn af gestum Ölfusrétta. Hann sagði réttafjörið hafa verið á sínum stað.

„Það var mjög gaman að koma í Ölfusréttir og upplifa stemminguna þar. Þrátt fyrir að féð væri ekki margt þá voru allir í góðu skapi og réttarfjörið var á sínum stað. Ég sá ekki víndropa á nokkrum manni enda segja bændur að það sé svo mikið af börum í Ölfusi að það dugi bændum að fara þangað. Þá kom mér líka á óvart að það var ekkert sungið í réttunum, maður er vanur að heyra smá söng í réttum, ég saknaði söngsins“, segir Magnús Hlynur.

Páll Þorláksson, bóndi á Sandhóli, segir nýliðun eiga sér stað í sauðfjárrækt í Ölfusimynd/dfs.is
Aldursforseti réttanna, Páll Þorláksson frá Sandhóli, var mjög ánægður með hvernig til tókst og segir nýliðun eiga sér stað í sauðfjárrækt á svæðinu.

„Hér er margt ungt fólk að eignast fé. Fyrir um tíu árum kom hér bakslag vegna riðu og því er ánægjulegt að sjá hvað hér var margt ungt fólk með fé,“ segir Páll.

Ekkert áfengi var haft um hönd í réttunum en Páll segir svo alltaf vera og að hann muni ekki eftir ölvuðum manni í Ölfusréttum. 

„Þeir sem vilja fá sér bjór fara hér föstudaginn fyrir ­smölun í það sem við köllum skrautreið. Síðan mæta allir hressir í smölun daginn eftir.“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×