Innlent

Aðalflugbraut lokað 2016 og vellinum eftir áratug

Kristján Már Unnarsson skrifar

Borgarstjórn Reykjavíkur ætlar að halda fast við þau áform sín að tveimur af þremur flugbrautum Reykjavíkurflugvallar verði lokað á næstu þremur árum og vellinum síðan endanlega lokað eftir áratug. Þetta kemur fram í nýju aðalskipulagi sem kynnt verður síðar í vikunni.

Vatnsmýrin verður eitt af þremur svæðum sem gegna munu lykilhlutverki í þróun Reykjavíkur á næstu áratugum, segir í texta aðalskipulagsdraganna, en hin eru Elliðaárvogur og miðborgin og gamla höfnin. Með uppbyggingu þessara svæða verði snúið við áratugalangri útþenslu Reykjavíkur til austurs og vexti borgarinnar beint inn á við, segir ennfremur í skipulagstextanum.

Þar er boðað að 6.900 íbúðir verði í Vatnsmýri, fjórtán þúsund íbúar, tólf þúsund störf og þrír grunnskólar. Sýnt er markmið um losun lands til uppbyggingar á næstu árum, strax verði byrjað á að byggja svæðið þar sem litla brautin er, suðvestur-norðausturbrautin, bæði við Skerjafjörð og á Hlíðarenda, árið 2015 verði farið að byggja svæði sunnan við Norræna húsið, árið 2016 verði aðalflugbrautinni lokað, norður-suðurbrautinni, og byggt á svæði milli Loftleiðahótels og Hringbrautar og einnig vestan Háskólans í Reykjavík, þar sem Landhelgisgæslan er.

Árið 2024 verði síðan afgangurinn tekinn til uppbyggingar, austur-vestur-brautinni lokað, og flugvallarstarfsemi endanlega hætt. Í skipulagstillögunni eru birtar myndir af því hvernig hin nýju hverfi gætu litið út.

Markmið borgarstjórnar um hvernig land flugvallarins verði losað til uppbyggingar.

Þess má geta að fyrir fimm dögum kynnti ný ríkisstjórn stjórnarsáttmála þar sem því er lýst yfir að framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar verði tryggð í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu, án þess þó að tekin væri afstaða til skipulags Vatnsmýrar.


Tengdar fréttir

Óraunhæft að færa Reykjavíkurflugvöll

Nýja ríkisstjórnin telur mikilvægt að framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar verði tryggð í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur hugmyndir um að færa flugvöllinn óraunhæfar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×