Innlent

Vonast til að ekki komi til þvingana vegna makrílveiða

Þorgils Jónsson skrifar
Lucinda Creighton, Evrópumálaráðherra Írlands, segist vongóð um að lausn náist í makríldeilunni. Írar eiga, líkt og Ís
Lucinda Creighton, Evrópumálaráðherra Írlands, segist vongóð um að lausn náist í makríldeilunni. Írar eiga, líkt og Ís
Evrópumálaráðherra Írlands er vongóð um að lausn finnist á makríldeilunni og segir óvíst að ESB beiti boðuðum viðskiptaþvingunum. Hún segir ákvörðun um að hægja á aðildarviðræðunum vera óvænta en skiljanlega.

Írsk stjórnvöld virða rétt Íslands til makrílveiða en semja verður um aflaheimildir, vonandi áður en gripið verður til viðskiptaþvingana. Þetta segir Lucinda Creighton, Evrópumálaráðherra Írlands, í samtali við Fréttablaðið en Írland fer með formennsku í ráðherraráði ESB um þessar mundir.

Hún segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægja á aðildarviðræðum við ESB hafa verið nokkuð óvænta en að hún sé þó ekki óeðlileg í ljósi komandi þingkosninga.

„Það er í raun eðlilegt og viðeigandi í þessu ferli að stjórnir og flokkar leitist við að taka aðildarviðræðurnar út fyrir umræðuna í aðdraganda kosninga. Hins vegar hefur þetta lítið að segja í raun nema að viðræður munu ekki hefjast í ákveðnum samningaköflum. Margir eru þegar til umræðu og ég vona að við getum undirbúið upphaf viðræðna um þá kafla sem enn standa út af borðinu áður en formennsku okkar lýkur."

Creighton segir Íra tilbúna til að helga sig viðræðunum að fullu þegar að því kemur. Þeir séu jákvæðir gagnvart stækkun og lengi hafi verið velvilji milli Íslands og Írlands.

Spurð hvort ekki reyni á vinsemd milli ríkjanna í makríldeilunni, þar sem írsk stjórnvöld og hagsmunaaðilar standa í fylkingarbrjósti ESB og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur deilt hart á boðaðar aðgerðir, segist Creighton vongóð um að sáttir náist.

„Frá okkar sjónarmiði virðum við rétt Íslands til að veiða makríl en spurningin snýst um skiptingu aflaheimilda. Það er háð samningsviðræðum þar sem allir vilja auðvitað ná góðri niðurstöðu. Ég er viss um að við getum náð saman um málið en það mun taka tíma."

Spurð út í fyrirætlanir ESB um að leggja á viðskiptaþvinganir í tengslum við makríldeiluna segir Creighton að ekki sé búið að taka lokaákvörðun í því máli.

„Þetta er augljóslega mjög viðkvæmt mál hjá mörgum ESB-ríkjum, en ákvörðunin um framhaldið er nú á borði hjá framkvæmdastjórninni. Ég vona hins vegar að hægt sé að leysa málið án þess að þurfi að koma til aðgerða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×