Innlent

Fundargögn til Reykjavíkur og til baka

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eva Dögg Þorsteinsdóttir skoðaði umslagið frá hreppnum eftir bókun sveitarstjórans og sá að það var merkt sem B-póstur.
Eva Dögg Þorsteinsdóttir skoðaði umslagið frá hreppnum eftir bókun sveitarstjórans og sá að það var merkt sem B-póstur. Mynd/Úr einkasafni.
„Mér finnst þetta mjög ósanngjarnt þar sem ekkert er við póstþjónustuna að sakast,“ segir Eva Dögg Þorsteinsdóttir sem situr ein í minnihluta í sveitarstjórn Mýrdalshrepps.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu á föstudag sat Eva hjá þegar sveitarstjórn afgreiddi fjárhagsáætlun næsta árs þriðjudaginn 10. desember. Sagði hún fundargögn hafa borist henni aðeins sólarhring fyrir fund og að hún hefði ekki verið boðuð á vinnufundi við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Ásgeir Magnússon sveitarstjóri bókaði á fundinum að fundargögnin hefðu verið sett í póst á Vík fimmtudaginn 5. desember. Óásættanlegt væri að Eva hefði ekki fengið gögnin fyrr.

„Sveitarstjóri og oddviti sáu um að koma fundargögnum í póst og þetta var sent með B-pósti þannig að það var aldrei möguleiki fyrir mig að fá gögnin fyrr en á mánudeginum því B-póstur fer allur til Reykjavíkur í flokkun og póstur sem er sendur á fimmtudegi með B-pósti kemur aftur til Víkur á mánudegi,“ útskýrir Eva.

„Ég tel markmið bókunarinnar hafi fyrst og fremst verið að beina athyglinni frá því að mér var haldið frá umræðu um fjárhagsáætlun,“ segir Eva. „Ég sit ein í minnihluta, svo valdið er algerlega hjá þeim ef þau vilja, en að halda mér frá umræðu er ólíðandi.“

Ásgeir Magnússon sveitarstjóri segir Evu hafa verið frjálst eins og öðrum að leggja eittvað til við fjárhagsáætlun.

„En ég held að hún hafi ekki lagt fram neina tillögu. Þetta er bara nöldur, það er ekki hægt að orða það öðruvísi,“ segir sveitarstjórinn sem kveður það hafa verið oddvitann sem skaust með fundargögnin í póst. Það hljóti að vera mistök póstsins að gögnin fóru í B-póst.

„Og eins furðulegt og það nú er sendir pósthúsið í Vík B-póst fyrst til Reykjavíkur áður en hann kemur til Víkur. Þetta er bara fíflagangur,“ segir sveitarstjórinn.

Brynjar Smári Rúnarsson, markaðsstjóri Íslandspósts, segir í yfirlýsingu að valinn hafi verið B-póstur þegar bréfið var póstlagt. „Sveitarstjórinn á Vík hefði því þurft að senda bréfið í A-pósti til þess að tryggja það að viðtakandi fengi umrætt bréf á réttum tíma,“ segir markaðsstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×