Innlent

Leikfélag Sólheima til Spánar

Freyr Bjarnason skrifar
Leikfélag Sólheima er á leiðinni til Spánar í fyrsta sinn í sumar. Edda Björgvinsdóttir verður leikstjóri.
Leikfélag Sólheima er á leiðinni til Spánar í fyrsta sinn í sumar. Edda Björgvinsdóttir verður leikstjóri.
Fljótlega eftir áramót hefjast æfingar hjá Leikfélagi Sólheima á nýju leikriti sem verður frumsýnt á sumardaginn fyrsta, rétt eins og síðustu 82 árin.

En þetta árið er óvenjulegt að því leyti að leikfélagið verður í samstarfi við annað leikfélag frá Madrid, höfuðborg Spánar.

Í byrjun maí mun spænski hópurinn koma til Íslands og sýna hóparnir saman í Þjóðleikhúsinu á upphafsdegi hátíðarinnar List án landamæra í Reykjavík. Í lok júní fer leikhópur Sólheima í sólina í Madrid og stígur á svið í þekktu leikhúsi þar í borg.

„Ég er alltaf svo þakklát og í gleðikasti í hvert skipti sem ég fæ tækifæri til að leikstýra þeim. Það kemst oft ekki fyrir á planinu mínu en núna hef ég tök á að leikstýra þessu spennandi verkefni,“ segir Edda Björgvinsdóttir, stórvinur samfélagsins í Sólheimum, sem ætlar að leikstýra Sólheimaflokknum.

Spænski hópurinn er í samstarfi við rithöfundana Auði Jónsdóttur og Þórarin Leifsson við að skrifa verk sem hefur sterka tengingu við Ísland. Sólheimaleikhúsið setur saman verk sem er byggt á verkum Federico García Lorca. Verkefnið er styrkt af þróunarsjóði EFTA.

Edda hefur þrívegis áður leikstýrt Sólheimaflokknum og aðspurð segir hún það alltaf jafngaman. „Þetta eru svo stórkostlega einlægir leikarar. Ef þú ætlar að njóta góðrar leiklistar þurfa að vera ekta tilfinningar á ferðinni og þær skorta þau ekki.“

Henni líst vel á að fara í sólina til Spánar með leikfélaginu. „Ég veit að það er mikil tilhlökkun í hópnum. Það verður ofboðslega gaman að fara í útrás með listina. Þetta verður algjört ævintýri og við hlökkum svakalega mikið til að sýna þeim okkar útgáfu af Lorca.“

Listrænt uppeldi mikilvægt

Leiklistin á Sólheimum er hluti af Rudolf Steiner-mannspekinni. „Hún snýst um að það sé svo mikilvægt að vera með listrænt uppeldi og upplifun til að hjálpa fólki til þroska. Þetta gerir Sólheimana að svo einkennilegu og sérstöku samfélagi því þau vinna við listsköpun,“ segir Edda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×