Lífið

Jólalegasti grunnskóli landsins

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Grunnskólinn í Bolungarvík er skreyttur með jólamynd í hverri rúðu, eða alls 491 jólamynd.
Grunnskólinn í Bolungarvík er skreyttur með jólamynd í hverri rúðu, eða alls 491 jólamynd. mynd/roland
„Hver einasta rúða skólans ber jólamynd þessi jólin,“ segir Soffía Vagnsdóttir, skólastjóri í grunnskólanum í Bolungarvík.

Um er að ræða jólamyndir sem eru eins konar mósaíkmyndir sem hylja allan gluggann. „Við byrjuðum með þessa hefð árið 1981 og þá var bara ein skólastofa sem bar svona jólamynd,“ útskýrir Soffía. Nú eru myndirnar hins vegar orðnar 491. „Við erum með með 491 rúðu sem er skreytt með jólamynd.“

Listaverkin eru gerð af nemendum skólans og mörg þeirra eru orðin talsvert gömul. „Við förum yfir myndirnar strax eftir jólin og gerum við þær myndir sem hafa skemmst eða rifnað,“ bætir Soffía við.

Aðalmyndin er stór og er af Jesú Kristi en hún er eina myndin sem fær alltaf að vera í sama glugganum, „Hún fær alltaf að vera á sama stað, sem er í stórum glugga sem snýr í átt að aðalgötunni.“

Yfirvöld skólans halda því fram að orkureikningur skólans lækki talsvert í desember vegna þess að myndirnar einangri vel og þar af leiðandi hlýni vel inni. Hins vegar kostar einnig talsvert að hafa næga lýsingu svo að myndirnar njóti sín vel utan frá.

„Það er gaman fyrir bæjarbúa að eiga eitt svona sameiginlegt jólaskraut sem er jú grunnskólinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.