Innlent

Helmingur íbúa skoraði á heilbrigðisráðherra

Samúel Karl Ólason skrifar
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, og Gunnar Ingvi Bjarnason bæjarfulltrúi afhentu ráðherra undirskriftirnar 668 í velferðarráðuneytinu.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, og Gunnar Ingvi Bjarnason bæjarfulltrúi afhentu ráðherra undirskriftirnar 668 í velferðarráðuneytinu. Mynd/Vesturbyggð
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fékk í dag afhenta áskorun sem ríflega helmingur allra íbúa Vesturbyggðar hafði skrifað undir. Áskorunin er um að hann falli frá því að fella heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar undir Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar.

„Íbúarnir óttast að með sameiningunni muni þjónusta skerðast og öryggi þeirra verði ógnað. Þá mun sameiningin einnig auka enn á einhæfni í atvinnulífi og fækka atvinnutækifærum. Aðgerðin er í hrópandi mótsögn við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um eflingu byggða og mikilvægt hlutverk hins opinbera við að halda úti þjónustu í nærsamfélaginu. Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar er vel rekin og hefur haldið sig innan fjárheimilda undanfarin ár, því er aðför ráðherra að heilbrigðis­stofnuninni á Patreksfirði óskiljanleg,“ segir í tilkynningu frá Vesturbyggð.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur boðist til að yfirtaka rekstur heilbrigðisstofnunarinnar en hefur ekki fengið nein svör.

„Sveitarfélagið hefur horft til þess að við yfirtökuna geta orðið til mörg tækifæri í samþættingu þjónustu við íbúa í samstarfi við Félagsþjónustu Vestur-Barðastrandarsýslu sem rekin er sameiginlega af Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi. Möguleiki er á að auka þjónustustigið og efla faglegt starf með sérhæfðu starfsfólki þar sem horft er heildstætt á hvert mál fyrir sig þar sem heilsugæsla og félagsþjónusta vinna saman að bestu lausn mála.  Sá möguleiki verður fyrir bí þegar ákvarðanataka flyst til Ísafjarðar.“



„Þá er sameiningin óskiljanleg í ljósi þess að litlar sem engar samgöngur eru milli Vesturbyggðar og Ísafjarðar 9 mánuði á ári,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×