Lífið

Randver og Birna í formannsframboð

Bjarki Ármannsson skrifar
Randver Þorláksson.
Randver Þorláksson.
Aðalfundur FÍL, Félags íslenskra leikara, verður haldinn í dag klukkan korter yfir fjögur í Iðnó. Dagskrá fundarins hefur þegar verið send út en þar ber helst að nefna kosningu formanns félagsins. Í framboði eru þau Randver Þorláksson og Birna Hafstein.

Randver er sitjandi formaður FÍL en hann tók við af Eddu Þórarinsdóttur árið 2003. Aðspurður segir hann aldrei annað hafa komið til greina en að bjóða sig fram í þrjú ár í viðbót.

„Nei, það kom ekki annað til greina,“ segir Randver. Hann fagnar jafnframt samkeppni frá mótframbjóðanda sínum. „Ég held ekki að það sé nein kosningabarátta í gangi.“ Birna er meðal annars þekkt fyrir leik sinn í kvikmyndinni Heiðin frá árinu 2008 og leikritinu Stóru börnin sem frumsýnt var í síðasta mánuði.

Einnig verður á fundinum kosið um þrjá varamenn stjórnar og eru í framboði þau Viktor Már Bjarnason, Ilmur Stefánsdóttir og Hallgrímur Ólafsson.

Athygli vekur að Hrafnhildur Theodórsdóttir lét af störfum sem framkvæmdastjóri FÍL hinn 1. desember síðastliðinn eftir tæplega fimmtán ára starf hjá félaginu. Sagði hún af sér eftir að starfshópur á vegum FÍL gaf út skýrslu þar sem útlistaðar voru æskilegar breytingar á starfsemi félagsins. Enn er óráðið hver tekur við af henni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.