Lífið

Getur verið að þú sért með mataróþol?

Marín Manda skrifar
Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti
Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti
„Sumir hafa reynt um árabil að losa sig við aukakílóin með hreyfingu og réttu mataræði en grennast samt sem áður ekki um gramm. Ástæðan getur verið fæðuóþol,“ segir Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti, sem er þessa dagana að vinna með fæðuóþolsprófið, Food Detective. Inga segir að fæðuóþol geti einnig valdið ýmsum líkamlegum kvillum eins og magaónotum, ristilbólgum, liðverkjum, höfuðverkjum, asma, kláða í húð og fleiri óþægindum.

Hún segir að fæðuofnæmi hefi lengi verið þekkt, en fæðuóþol sé aftur á móti lúmskt fyrirbæri og oft mjög erfitt að átta sig á hver óþolsvaldurinn er. Til að mynda getur mjólk eða brauð sem neytt er í dag leitt til liðverkja þremur dögum síðar. Sum fæðutengd einkenni geta líka stafað af skorti á ensímum eða næmni fyrir kemískum efnum en önnur orsakast af ónæmiskerfinu og viðbrögðum þess við áreiti. „Ég hef oft orðið vör við það í minni vinnu að fólk sé orðið langþreytt á ástandinu og heilsuleysinu sem ekki virðist eiga neina skýringu því ekkert komi fram með hefðbundnum rannsóknaraðferðum,“ segir Inga.

Hvað er fæðuóþol?



„Það er ekki vitað með vissu hvað orsakar fæðuóþol en talið er að ófullnægjandi melting, bakteríuójafnvægi, sveppasýkingar, sníkjudýr, sýkingar í þörmum eða áhrif lyfja geti haft áhrif. Nýlegar rannsóknir Atkinsons og samstarfsmanna hans hafa leitt í ljós að ákveðin fæðumótefni og einkenni fæðuóþols eru nátengd.

Framleiðsla mótefnis er ein af leiðum ónæmiskerfisins til að bregðast við efnum sem hafa neikvæð áhrif á líkamann. Við eðlilegar aðstæður blandast þessi mótefni prótíni í fæðunni og mynda efnasambönd sem ónæmiskerfið eyðir. Ef ónæmiskerfið er undir miklu álagi geta efnasamböndin safnast upp á stöðum eins og liðamótum eða í meltingarvegi og kallað fram einkenni fæðuóþols.“

Hvað er hægt að gera til að mæla fæðuóþol?



„Hingað til hefur ekki verið í boði að fá fæðuóþol mælt með blóðprufu, en nú er orðin breyting þar á. Food Detective er nýtt byltingarkennt fæðuóþolspróf sem mælir óþolsviðbragð (IgG) við yfir 50 fæðutegundum með litlu blóðprófi sem framkvæmt er heima eða hjá fagaðilum.“

Inga segir prófið vera mjög einfalt í notkun og sýni niðurstöður innan 40 mínútna. „Það er mikilvægt að fólk taki ábyrgð á eigin heilsu og leiti eftir hjálpinni þar sem hana er að fá. Food Detective-óþolsprófið er sannarlega góður vegvísir að mögulegu vandamáli og getur flýtt fyrir að fólk komist á rétta braut í mataræðinu. Þetta er öflugt hjálpartæki sem getur sparað tíma og fjármuni,“ segir Inga. Food Detective-fæðuóþolsprófið er hægt að kaupa á heilsanheim.is, Lyfju, Heilsuhúsinu og í Lifandi markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.