Lífið

Jólaleikrit sem er alls ekki fyrir börn

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Vignir Rafn Valþórsson.
Vignir Rafn Valþórsson. Fréttablaðið/Vilhelm
„Leikritið fjallar um mann sem kemur að hitta vin sinn í vinnunni klukkutíma fyrir jól. Hann segist þurfa að sýna honum svolítið merkilegt en hann er búinn að handsama jólasvein. Vinurinn kaupir það ekki alveg strax en þeir yfirheyra hann og þá gerist ýmislegt. Leikritið endar á ákveðinn hátt og kannski ekki eins og venjuleg jólaleikrit enda,“ segir Vignir Rafn Valþórsson, leikstjóri leikritsins Nóttin var sú ágæt ein eftir Anthony Neilson, sem er jólaleikrit fyrir fullorðna. Leikfélagið Óskabörn ógæfunnar setur verkið upp en félagið setti það líka upp í fyrra.

„Aðalpersónur leikritsins eru ekki mikil jólabörn, ekki frekar en margir fullorðnir í dag þar sem búið er að eyðileggja jólin svolítið. Þetta leikrit er mjög gott fyrir þá sem eru komnir með ógeð á jólakjaftæðinu þar sem allt snýst um að selja. Margir eru löngu búnir að gleyma um hvað jólin snúast í raun og veru. Leikritið er alls ekki fyrir börn, enda ýmisleg rætt sem börn eiga alls ekki að fá að heyra fyrr en vel eftir fermingu,“ bætir Vignir við.

Ófrýnilegur jólasveinn.
Leikritið verður frumsýnt í Tjarnarbíói 11. desember og fá leikhúsgestir sjálfir að ákveða miðaverðið. Lágtekjufólk greiðir tvö þúsund krónur, millitekjufólk þrjú þúsund krónur og hátekjufólk fimm þúsund krónur. Gestir velja sjálfir í hvaða flokk þeir setja sig. 

„Við höfum gert þetta nokkrum sinnum með sýningarnar okkar og þetta hefur reynst okkur mjög vel. Við fáum enga styrki og er verkið sett upp með peningum úr okkar eigin vasa. Vonandi fáum við einhverjar krónur í kassann til að geta keypt meira eins og maður þarf að gera um jólin.“

Leikarar í sýningunni eru Benedikt Karl Gröndal, Davíð Freyr Þórunnarson, Kári Viðarsson og Svandís Dóra Einarsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.